„Væri ekki hægt án öflugs innra starfs“

Sólgleraugun voru staðalbúnaður á Katlavelli í sumar. Hér er Methúsalem Hilmarsson, hugmyndasmiður B…
Sólgleraugun voru staðalbúnaður á Katlavelli í sumar. Hér er Methúsalem Hilmarsson, hugmyndasmiður Blush-Open á Katlavelli á einum af fjölmörgum góðviðrisdögum. Myndir/GH.

Golfklúbbur Húsavíkur (GH) hefur verið í stórsókn undanfarin ár enda golf að verða ein vinsælasta almenningsíþrótt Húsvíkinga. En golfið er ekki bara íþrótt og góð hreyfing heldur er það ákveðinn lífstíll og menningarfyrirbæri sem sér ekki aðeins heimafólki fyrir lífsnauðsynlegri afþreyingu heldur er aðdráttarafl sem laðar gesti að frá öllum landshornum helgi eftir helgi. Að sögn Birnu Ásgeirsdóttur, formanns GH hafa veðurguðirnir meira að segja lagt sitt á vogarskálarnar og skaffað golfurum á Katlavelli blíðskaparveður, svo að segja í allt sumar.

 

„Það er búinn að vera mjög mikill kraftur í þessu hjá okkur. Við erum bara alsæl með sumarið, iðkendum hefur fjölgað verulega, öll mót hafa verið full í sumar og við erum búin að vera einstaklega heppin með veður,“ segir hún.

Mannauðurinn lyft grettistaki

Aðstaða til golfiðkunar fékk að segja má byltingu þegar nýr golfskáli reis fyrir þremur árum  enda hefur klúbburinn sprungið út síðan. En það er ekki nóg að hafa innviðina þó að þeir séu nauðsynlegir. Mannauðurinn er alltaf það mikilvægasta í öllu félagsstarfi og í GH er mikið ríkidæmi af fólki sem af hugsjón, krafti og elju hefur drifið klúbbinn upp á þann stall sem hann er í dag. Enda fjölgar sífellt í hópi þess fólks sem nýtur flestra frístunda sinna á Katlavelli, allt frá börnum og upp í gamalmenni ef það má orða það þannig.

Fullt á öll mót

Þá hefur verið mikil gróska í mótahaldi og varla verið helgi í allt sumar þar sem ekki er skipulagt mót.

„Jú þetta er talsverður fjöldi af mótum; Skóbúðarmótið er alltaf vinsælt, Blush open, GPG Seafood open, og það kemur mikið af aðkomufólki á öll þessi mót. Sjávargrillið open, þar var t.d. alveg 50 prósent aðkomufólk. Það er tveggja daga mót sem Gústi er að halda, hann er svo mikill Húsvíkingur,“ segir Birna kankvís og á þar við stjörnuveitingamanninn Gústav Axel Gunnlaugsson.

Barna- og unglingastarf í hávegum haft

Birna segir jafnframt að golfið sé í mikilli uppsveiflu á landsvísu og það séu margir klúbbar farnir að loka fyrir skráningu nýrra meðlima. „Við erum ekki komin þangað,“ segir Birna og bætir við aðspurð hvað skýri þennan vöxt að aðstaðan sé náttúrlega fyrsta flokks og trekki mikið að. „Svo höfum við líka verið dugleg í kynningar og nýliða starfinu.“

Barna- og unglingastarf hjá GH hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og er það ekki síst að þakka stórbættri aðstöðu með nýjum golfskála. Þannig hafa möguleikar til golfiðkunar allt árið stóraukist með fyrsta flokks golfhermasal. „Já, við erum farin að vera með barna og unglingastarfið allt árið núna, vorum í fyrsta skipti síðasta vetur, það hefur ekki verið hjá okkur áður,“ segir Birna og bætir við að snemma í sumar hafi verið veglegt styrktarmót.

„Barna- og unglingastarfið okkar er mjög vaxandi og við getum þakkað frábærum stuðningi nokkurra foreldra og þjálfara í klúbbnum að nú dafnar þessi hópur eins og blóm í sumarsól. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá krakkana standa sig vel á mótinu og vonandi veitir þetta þeim sjálfstraust til að taka þátt í fleiri mótum á vegum klúbbsins,“ segir Birna ennfremur en um 50 börn eru skráðir félagar í GH.

Strákarnir hafa tekið ástfóstri við golfið

„Þetta eru alveg 25 krakkar sem æfa fast en það eru 50 börn skráð í klúbbinn. Það er rosalega mikið af ungum strákum sem hafa verið að koma um borð í þetta með okkur og hafa verið að spila golf alla daga í sumar en því miður ekki nóg af ungum stelpum. Klúbburinn væri ekkert án öflugs innra starfs og heldur ekkert án nýliðunar. Og ekki má gleyma því að við fáum svo frábæran stuðning úr okkar nærsamfélagi, frá fyrirtækjum og einstaklingum. Við kunnum öllu þessu fólki og fyrirtækjum miklar þakkir fyrir, þetta er ómetanlegt. Í þessu móti tók Icewear utan um okkur og gaf öll verðlaun af miklum höfðingskap,“ útskýrir Birna.

Ein vinsælasta paraskemmtun landsins

Þá hefur Blush open notið gríðarlegara vinsælda. Um er að ræða hjóna- og paramót í golfi en það fór fram dagana 18.–19. júlí sl. við frábærar aðstæður, fjöruga og skemmtilega stemningu.

Spilaðar voru 36 holur með fyrirkomulaginu betri bolti fyrri daginn og greensome þann síðari. Þessi hugtök eru greinarhöfundi reyndar alveg óskiljanleg og þar sem einhverjir lesenda gætu verið á sama báti, þá var ráðist í rannsóknarvinnu:

Fyrirkomulagið „betri bolti“ í golfi er vinsælt leikform þar sem tveir leikmenn mynda lið og báðir leika sínum eigin bolta á hverri holu – líkt og í venjulegum höggleik eða punktakeppni. Báðir leikmenn leika holuna sjálfstætt. Aðeins betra skor (færri högg eða fleiri punktar) af þeim tveimur telst á skorkortið fyrir liðið. Þetta þýðir að liðið fær alltaf bestu mögulegu niðurstöðu á hverri holu miðað við leik beggja kylfinga.

Í „Greensome“ slá báðir leikmenn í liðinu upphafshögg á hverri holu, eftir það velur liðið besta bolta til að halda áfram með. Þegar boltinn hefur verið valinn, slá leikmenn til skiptis þar til holunni er lokið. Ef högg A er valið, slær leikmaður B næsta högg, og svo framvegis.

Gríðarleg stemning

Alls tóku 74 keppendur þátt og má með sanni segja að mótið hafi verið fullt af spennu, ástríðu og gleði – alveg í anda Blush Open en keppendur voru á aldrinum 22 - 76 ára. Mótið hefur fest sig í sessi sem eitt það skemmtilegasta á sumardagskrá golfáhugamanna, boðið var upp á frábæra takta og mikla samvinnu hjóna og para. Og þó að um keppni sé að ræða, þá var grínið og sprellið aldrei langt undan. Keppendur klæða sig í alls konar múnderingar meðan á keppni stendur og eru veitt verðlaun fyrir bestu búningana.

„Hugmyndin að þessu móti kom upp þegar við vorum búin að byggja nýjan skála og langaði til að prófa eitthvað nýtt. Það er einn félagi okkar, Methúsalem Hilmarsson sem á heiður og lof skilið fyrir að sjá um þetta mót fyrir hönd GH. Hann fékk þessa hugmynd og hjólaði í að koma þessu í kring og semja við Gerði í Blush. Henni fannst þetta líka svo geggjað að hún kýldi á þetta. Enda hefur mótið slegið í gegn en þetta er þriðja árið sem það var haldið núna í sumar og var þvílíkt fjör. Sumarið er búið að vera alveg frábært og við erum enn á fullu og höldum áfram þar til það byrjar að snjóa,“ segir Birna að lokum.

 

 

Nýjast