Útboðsgögn vegna byggingu fimmta áfanga við Háskólann á Akureyri á Sólborg eru tilbúin og verður verkið auglýst á næstu dögum. Reiknað er með að vinna við framkvæmdina hefjist í sumar. Þráinn Sigurðsson, sérfræðingur hjá mennta-og menningarmálaráðuneytinu, segir að þeir fjármunir sem ríkið fékk vegna sölu á 75% hlut sínum í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti, alls 45 milljónir króna, verði nýttir í framkvæmdina við HA.
Þráinn sagði stefnt að því að ljúka framkvæmdum við nýbygginguna fyrir haustið 2013. Þegar framkvæmdum við 5. áfanga lýkur, er byggingaframkvæmdum á svæðinu lokið, í bili að minnsta kosti. Með tengibyggingu er 5. áfangi 740 fermetrar og þar verða skrifstofur kennara.