06. september, 2007 - 13:24
Unnið er að stofnun ungmennaráðs hjá Akureyrarbæ um þessar mundir og hefur samfélags- og mannréttindaráð falið forvarnafulltrúanum, Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur, að vinna að málinu. Katrín Björg sagði að í nýjum æskulýðslögum væru sveitarstjórnir hvattar til að hlutast til um að stofna ungmennaráð sem hafi það hlutverk að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. „Starfsfólk samfélags- og mannréttindadeildar hefur mikinn áhuga á að taka þátt í uppbyggingu ungmennaráðs hér í bæ og var sú hugmynd rædd á fundi samfélags- og mannréttindaráðs um daginn. Ráðið tók hugmyndinni vel og var forvarnafulltrúa falið að móta tillögur um stofnun ungmennaráðs," sagði Katrín. Hún bætti því við að þegar frekari tillögur hafi verið lagðar fram, verði ljósara hvernig tilvonandi ungmennaráð hagi starfi sínu.