Unnið að gerð eldvarnaráætlana fyrir skógræktarsvæði

Starfsmenn Norðurlandsskóga hafa að undanförnu átti fundi með skógarbændum á starfssvæði sínu, en það nær yfir Húnavatnssýslur, Skagafjörð, Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur.  Á fundunum var kynnt áætlun Norðurlandsskóga um gerð eldvarnaráætlunar fyrir hvert skógræktarsvæði og er hún gerð í samstarfi við skógarbændur og slökkvilið á hverjum stað. Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga segir að skógarbændur séu meðvitaðir um þá hættu sem skógareldar geta haft í för með sér, en á fundunum var m.a. fjallað um aðgerðir sem hægt er að grípa til svo draga megi úr hætti á því að eldar breiðist út.

„Skógarbændur voru almennt mjög meðvitaðar um áhættuna af því að eldur komist í skógræktarsvæðin og tilbúnir til að grípa til þeirra ráðstafanna sem hægt er til að lámarka þessa áhættu,“ segir hún. Í sumar og haust munu starfsmenn Norðurlandsskóga gera eldvarnaráætlun fyrir hvert skógræktarsvæði í samstarfi við skógarbændur og slökkvilið.  

Þar koma m.a. fram  vatnstökustaðir, slóða-og vegakerfi og fleira sem nýst getur þegar slökkva þarf eld. Fyrstu viðbrögð geta skipt sköpum þegar eldur verður laus, haugsugur geta t.d. verið öflug tæki til að slökkva elda og því er mikilvægt að vita hvar hægt er að nálgast slík tæki, og gott er að ræða við nágranna sem væri tilbúinn að koma fljótt til aðstoðar. 

 

Nýjast