Nú er sá tími kominn í lífi dóttur minnar að henni býðst starf hjá Akureyrarbæ í unglingavinnunni, þar sem hún verður 14 ára á árinu. Og sem umhyggjusöm móðir kynnti ég mér starfið í hverju það fælist og hver launin væru. Það er ekki ofsögum sagt að mér hafi hreinlega blöskrað, svei mér þá.
Henni býðst að starfa í þrjá tíma á dag á tímabilinu 1.júní -1.ágúst og getur unnið allt að 90 tíma á þessu tímabili.
Og launin, já launin eru samkvæmt síðasta ári að minnsta kosti heilar 368 kr á tímann og við bætast heilar 37 kr á tíman í orlof. Samtals 405 krónur. Samkvæmt mínum útreikningum gera þessir 90 tímar heilar 36.450 kr. og samkvæmt heimasíðu Akureyrarbæjar reiknast af þessu 6% skattur sem gera þá 34.263 kr.
Veit ég vel að mörgum börnum munar um minna eins og staðan er á fjölmörgum heimilum svo þau geti leyft sér eitthvað, kannski með vinum og félögum og ég tala nú ekki um ef þau langar í eitthvað sem kannski foreldrar geta ekki veitt þeim.
En halló, hvað skyldi það kosta Akureyrarbæ að fá fullorðið fólk í þessi sömu störf og þurfa að borga eftir taxta bæjarins? Hvað er bærinn að spara sér mörg hundruð þúsund á ári ef ekki milljónir með þessari vinnu unglinga bæjarins? Ég bara spyr! Hver ætti þá að hreinsa blómabeðin, týna allt rusl,sópa á þeim stöðum sem þess þarf og sinna smáverkum.Yrði ekki bærinn að ráða fleira starfsfólk FULLORÐIÐ starfsfólk til að sinna þessu og borga því samkvæmt taxa bæjarins.
Misskiljið mig ekki ég hef aldrei verið á móti vinnu og það er hverju barni hollt að og heilbrigt að upplifa það að fá greitt fyrir vinnu sína og leggja svolítið á sig til að vinna fyrir sínu. En er þetta heilbrigt 9níu vikur,TVEIR MÁNUÐIR OG EIN VIKA og fyrir tímann færðu 34.263 krónur.
Það finnst mér ekki og tek ég því undir orð Sigurðar Guðmundssonar bæjarfulltrúa A-listans á Akureyri um að hér sé ekki um annað að ræða nema "tittlingaskít" sem bærinn hendir í unglingana okkar í staðin fyrir að borga þeim mannsæmandi laun.
Því spyr ég mig, ætti ég yfirleitt að vera að hvetja dóttir mína til að sækja um hjá Akureyrarbæ í sumarvinnu og fá tittlingaskít að launum.Eða kenna henni frekar að hún eigi rétt á sanngjörnum launum fyrir sanngjarna vinnu og hunsa tilboð bæjarins um starf. Já maður spyr sig.
Sædís Inga Ingimarsdóttir