Þriggja manna nefnd sem Akureyrarbær skipaði til að kanna hugsanlega aðkomu bæjarins að hátíðahöldum í bænum um verslunarmannahelgina hefur skilað niðurstöðum til bæjaryfirvalda. Nefndinni var ætlað að meta hvernig til hafi tekist með útihátíðina ,,Ein með öllu" undanfarin ár, ræða við hlutaðeigandi aðila, gera tillögur um markmið Akureyrarbæjar varðandi hugsanlegrar aðkomu að hátíðinni og gera tillögu um tjaldsvæðamál. Í nefndinni voru Anna Þóra Baldursdóttir, Baldvin H. Sigurðsson og Margrét Kristín Helgadóttir. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur m.a. fram að Akureyrarbæ beri að setja ákveðin skilyrði gagnvart hagsmunaaðilum fari svo að bærinn komi að hátíðahöldunum. Dagskrá hátíðarinnar verði meira beint að börnum og fjölskyldufólki og að í auglýsingum verði lögð áhersla á að ekki sé um ungmennahátíð að ræða. Löggæsla verði stórefld og ef unglingadansleikir verði haldnir verði þeir á afgirtu svæði. Þá er þess krafist að hagsmunaaðilar reki sjúkratjald alla hátíðina, fjölskyldutjaldsvæði verði að Hömrum og við Þórunnarstræti en einstaklingstjaldsvæði á ,,brennusvæði" ofan Glerár.
Nefndin segir að mun verra ástand sé í bænum að margra mati um verslunarmannahelgi þau ár sem Akureyrarbær komi ekki að málum og þegar lítið eða ekkert skipulagt samkomuhald er. Þess vegna leggur nefndin til að bærinn skipi starfshóp sem vinni að skipulagi fyrir hans hönd í nánu samráði við alla aðra sem að málum koma. Meiri kröfur eigi að gera um fjölbreytta dagskrá fyrir börn og fjölskyldur og verði það liður í því að reyna að breyta ásýnd samkomuhalds í bænum um þessa helgi og þegar til framtíðar er litið. Eflaust sýnist sitt hverjum um þá tillögu að safna unglingum saman á tjaldsvæði á brennusvæðinu við Réttarhvamm nærri Glerá. Fór svo reyndar í nefndinni að Margrét Kristín Helgadóttir skilaði séráliti. Þar sagði hún m.a. að það þýddi lítið að segja að ,,Ein með öllu" sé fjölskylduskemmtun og bjóða síðan upp á sérstök afgirt unglingatjaldsvæði.