Fundurinn telur að miklu skipulegar þurfi að standa að hreingerningu og að slíkt sé alger forsenda þess að fyrirtækin geti komist á heilbrigðan rekstrargrundvöll að nýju og skapi verðmæti og vinnu. Fundurinn fordæmir sérstaklega allar tilraunir bankanna til að endurreisa fallna stórleikara græðgishagkerfisins - í skjóli ríkisstjórnar jafnaðarmanna.
Á aðalfundinum var Helena Þ. Karlsdóttir kjörinn nýr formaður og tekur hún við að Jóni Inga Cæsarssyni, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þrír einstaklingar voru í framboði til formanns, auk Helenu, þeir Hallur Heimisson og Ingi Rúnar Eðvarsson. Annars er stjórnin þannig skipuð:
Ingólfur F. Guðmundsson, varformaður
Hallur Heimisson, gjaldkeri
Ingi Rúnar Eðvarðsson, ritari
Anna Valdís Jónsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn eru:
Agnes Arnardóttir
Brynja Siguróladóttir
Aðalfundur Samfylkingarfélagsins á Akureyri samþykkti jafnframt ályktun, þar sem þess er krafist að ríkisstjórnin beiti opinberu frumkvæði til þess að létta á skuldavanda íslensks almennings og þvingi fjármálastofnanir til þess að skila til baka óraunsæjum hækkunum á höfuðstól verðtryggðra lána. Jafnframt brýnir fundurinn ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG til tafarlausra aðgerða í samræmi við stjórnarsáttmálann með það fyrir augum að draga úr og síðan að afleggja verðtryggingu allra lána heimilanna.
Greinargerð; Opinber gögn benda til þess að þriðjungur af öllum fjölskyldum á Íslandi muni sitja uppi með neikvæða eiginfjárstöðu fyrir lok ársins 2010 og enn hærra hlutfall barnafjölskyldna sé í skuldavanda. Þvinguð greiðslubyrði stökkbreyttra lána tekur til sín meira fé en meðalfjölskyldan hefur til ráðstöfunar. Þess vegna stefnir í það að neytendaveltan dragist saman og kaup almennings á vörum og þjónustu falli varanlega - með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðarframleiðslu og skapi viðvarandi atvinnuleysi. Með slíkum samdrætti hrynja einnig tekjur ríkissjóðs.
Aðalfundur Samfylkingarfélagsins á Akureyri hafnar því algerlega að endurreisn efnahagslífsins á Íslandi fari fram undir leiðsögn Viðskiptaráðs Íslands og á forsendum hins hrunda hagkerfis græðgi og sérhyggju. Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að fjölbreytt rekstrarform, samvinnufélaga, sjálfseignarfélaga og sjálfseignarstofnana fái endurnýjaðan sess í styrkri löggjöf. Tímabundið íhlutandi hlutverk opinberra aðila við endurreisn atvinnulífs þarf að nýtast til að setja fákeppni og markaðsgræðgi eðlilegt aðhald.
Greinargerð; Það er mikilvægt hlutverk fyrir Samfylkinguna sem burðarflokk til sameiningar sjónarmiða hófsamrar miðju, félagshyggju- jafnaðar og vinstri manna - að skapa forsendur fyrir því að almenningur geti sjálfur virkjað markaðsaðhald gagnvart öfgum einkagróðans - í gegn um þátttöku í hagkvæmum og skilvirkum rekstri fyrirtækja og stofnana.