Undirritun viljayfirlýsingar um landeldisstöð á Bakka

Við undirritun    Mynd aðsend
Við undirritun Mynd aðsend

Sveitarfélagið Norðurþing og Bakkavík landeldi ehf., hafa undirritað viljayfirlýsingu vegna lóðar undir hugsanlega landeldisstöð á vegum Bakkavík landeldi ehf. á iðnaðarsvæðinu á Bakka norðan Húsavíkur.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Bakkavík landeldi ehf. telur mikil tækifæri fyrir hendi til sjálfbærrar auðlindanýtingar og atvinnusköpunar í Norðurþingi með uppbyggingu landeldisstöðvar fyrir lax á lóðinni. Með því móti verður jafnframt styrkari stoðum skotið undir atvinnulíf og búsetu í Norðurþingi og nágrannabyggðum. Bakkavík landeldi ehf. telur rétt að kanna ítarlega fýsileika þess að reka landeldisstöð á svæðinu.

Norðurþing telur að verkefnið falli vel að nýrri umhverfis- og loftslagsstefnu sveitarfélagsins, hringrásarhagkerfinu og þeirri hugmyndafræði sem hefur verið mótuð af samfélaginu um Grænan iðngarð á Bakka. Sjálfbær nýting orku og annarra auðlinda verður leiðarljós í þróun og rekstri stöðvarinnar og verður leitað leiða til að hámarka samlegðaráhrif sem stuðlað geta að bættri nýtingu ólíkra auðlindastrauma í anda hringrásarhugsunar.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri gat þess við undirritun samningsins að sveitarstjórn sjái fyrir sér landeldi á Bakka í framtíðinni. „Við vonum að rannsóknir Bakkavíkur landeldi leiði á næstu árum í ljós hagkvæmni þess að reka landeldisstöð á Bakka. Það er ánægjulegt að undirrita í dag viljayfirlýsingu við trausta og áhugasama aðila með reynslu í eldismálum og uppbyggingu eldisfyrirtækja“.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bakkavíkur landeldis segir að um þróunarverkefni sé að ræða sem tekur nokkur ár. „Bakkavík landeldi ehf. hefst nú handa við að greina fýsileika þess að byggja upp og starfrækja landeldisstöð á lóðinni. Sú vinna felur meðal annars í sér mat á aðgengi að nauðsynlegum auðlindum og innviðum, svo sem jarðhita, ferskvatni, raforku, jarðsjó og hafnaraðstöðu, þróun laga-, skatta- og viðskiptaumhverfis fiskeldisstöðva, mat á starfsleyfisskilyrðum, samgöngum o.fl.“

Leiði greining Bakkavík landeldi ehf. til þeirrar niðurstöðu að starfsemi landeldisstöðvar sé fýsileg á lóðinni lýsa aðilar því yfir að vilji þeirra standi til þess að ganga til samninga um notkun lóðarinnar fyrir landeldisstöð.

 

Nýjast