Borgarstjórinn í Denver, Colorado í Bandaríkjunum kemur í heimsókn til Akureyrar á morgun miðvikudag ásamt fylgdarliði. Með í för verða fulltrúar Icelandair Group og Icelandair en Denver er nýr heilsársáfangastaður Icelandair. Gestirnir munu m.a. fara í heimsókn til Hríseyjar, þar sem hús Hárkarla Jörundar verður skoðað og þar snæddur hádegisverður. Einnig verður farið í skoðunarferð um Akureyri, eða fram að dagskrá í Hofi seinni partinn. Þar munu Michael B. Hancock borgarstjóri Denver og Eiríkur Björn Börgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, m.a. undirrita viljayfirlýsingu um að koma á vinabæjarsambandi á milli bæjanna.
Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair flutti fyrirlestur á málþingi í Háskólanum á Akureyri á dögunum, sem bar yfirskriftina: Þróun og horfur í ferðaþjónustu. Þar fór hann yfir starfsemi Icelandair, sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum, hann sagði frá nýjum áfangastöðum félagsins og hversu gríðarlega miklu máli þeir skipta fyrir ferðaþjónustuna og marga fleiri. Denver er nýjasti áfangastaðurinn og sagði Birkir að 10% af farþegum félagsins þangað væru Íslendingar en 90% útlendingar. Hann sagði jafnframt að flug eins og til Denver hefði gríðarleg áhrif á Evrópuleiðirnar í tíðni og að flæði farþega á milli meginlands Evrópu og Colorado væri mikið.
Birkir sagði að frá hruninu 2008 hefði Icelandair bætt við fjórum nýjum flugleiðum til Norður Ameríku. Hann nefndi að farnar væru 325 ferðir á ári til Seattle og 204 ferðir til Denver. Birkir sagði að samkvæmt skýrslu sem Hagfræðistofnun HÍ vann fyrir félagið, sé framlegð þessara nýju flugleiða, til Seattle og Denver, um 5,6 milljarðar króna, sem sé meira en meðalaflaverðmæti 5 skuttogara, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Þarna er aðeins hálf sagan sögð, því það njóta mun fleiri, birgjar, veitingastaðir, gististaðir og fleiri. Áhrifin á þessum tveimur flugleiðum liggja því á bilinu 10-20 milljarðar króna. Þetta skiptir því miklu máli en það fær ekki alltaf mikla athygli þegar verið að hefja flug á nýja áfangastaði, sagði Birkir.
Hann sagði að einnig hefði verið gerð skýrsla um áhrif flugs Icelandair til Denver á efnahagslífið þar. Niðurstaðan var sú að þetta þýddi aukningu upp á 28 milljónir dollara eða um 3 milljarða króna. Þetta þýðir einnig að með fluginu okkar erum við að skapa tæplega 300 ný störf í Denver.