Undirbúningur fyrir sýningu Steypireyðarinnar á lokastigi

Starfsfólk Hvalasafnsins á Húsavík bera jarðneskar leifar hrefnukálfs til geymslu þar sem þær munu h…
Starfsfólk Hvalasafnsins á Húsavík bera jarðneskar leifar hrefnukálfs til geymslu þar sem þær munu hvíla fram á sumar, en hrefnukálfurin þurfti að víkja fyrir stórmerkilegri beinagrind steypireyðar sem verður til sýningar innan skamms. Mynd: Huld Hafliðadóttir
Það er mikið um að vera á Hvalasafninu á Húsavík þessa dagana. Um helgina verður haldið opnunarhóf vegna nýrrar sýningar. Steypireyðurin sem rak á land á Skaga árið 2010 er komin til Húsavíkur þ.e beinagrindin af henni, eftir talsvert karp og nú fer hún að verða klár til sýningar. Dagskráin talaði við Huld Hafliðadóttur verkefnastjóra hjá Hvalasafninu en hún var á fullu við að undirbúa opnunina. Hún sagði frá því að við komu steypireyðarinnar sem er u.þ.b. 25 m löng með sporði hafi tapast talsvert sýningarpláss. "Nú er t.d. verið að flytja hrefnukálf sem var hluti af líffræðisýningunni okkar í geymslu. Það stendur til að finna honum pláss við innganginn, hann bara þolir svo illa hnjask [sem fylgir breytingunum, innsk. frá blaðamanni] svo við ákváðum að koma honum í geymslu fram á sumarið," sagði Huld.
Engin beinagrind var áður til af steypireyði hér á landi og í raun örfáar til í heiminum. Það er því mikið verðmæti og sýninga- og fræðslugildi fólgið í þessari beinagrind. EPE
Hófið verður opið fyrir gesti og gangandi frá kl. 14:00 - 18:00 laugardaginn 12. mars. 

Nýjast