Ég er alveg stráheill og var bara nokkuð hress eftir óhappið, en fann það svo daginn eftir að ég var lemstraður á skrokknum, segir Smári Sigurðsson sem lenti í snjóflóði í vélsleðaferð nokkurra félaga en ferðinni var heitið á Kerlingu. Ópappið var í liðinni viku og fór að sögn Smára betur en á horfðist, sleðamenn komu flóðinu sjálfir af stað. Smári segir í pistli sem hann skrifar á heimasíðu sína að snjóflóð hafi í sínum huga ævinlega verið eitt af helstu atriðunum á válistanum í vetrarferðum um fjalllendi og hann hafi aflað sér upplýsinga um eðli þeirra og orsakir, sem og hvernig best sé að bregðast við lendi menn í slíkum flóðum.
Að sjá hlíðina fyrir ofan sig skyndilega breyta um form og lögun, átta sig á að undankomuleið er ekki í boði, er undarleg tilfinning. Sjá rennislétta kristallagða snjóbrekku umturnast og æða á móti sér takast á loft og grafast síðan á bólakaf, hnoðast og velta, geta enga björg sér veitt. Missa allt loft úr lungum, vitin full af snjó, rétt eins og steyptur í mót. Þannig lýsir Smári reynslu sinni af því að lenda í snjóflóðinu í síðustu viku.
Hann segir að áður en lagt var af stað hafi hópurinn tekið stöðuna, velt fyrir sér hvar væri snjóflóðahætta og hvar snjósöfnun, en hvergi hafi menn orðið varir við spýjur eða flóð og hvergi var hreyfing á snjóþekjunni á leiðinni á Kerlingu. Engu að síður var þetta klárlega vanmat á aðstæðum og sjálfsagt ofmat á eigin getu. Að meta ekki aðstæður rétt, hvernig nýsnævið lá, hvar dyngjan var mest ofan á harðfenni. Og ekki síst að fara fleiri en einn í brekkuna í einu, segir Smári.
Hann var vel búinn, með snjóflóðaýli sem og allir félagar hans í ferðinni og þá var hann með þar til gerðan bakpoka sem hægt er að sprengja út loftpúða, en hann hjálpar til við að færa þá sem í snjóflóði lenda nær yfirborði flóðsins. Smára tókst vel til við að sprengja út púðann, en kveðst ekki geta fullyrt hvort það hafi verið hann sem bjargaði því sem bjargað varð. Hann hins vegar virkaði, sprakk út og þegar flóðið stoppaði var ég kominn upp að yfirborði flóðsins, segir hann þó svo hann hafi enn verið fastur og með andlitið ofan í snjónum. Hann losaði sig sjálfur upp og stóð nánast óskaddaður á eftir, lafmóður þó og púlsinn eflaust ansi hár. Smári segist trúa því að pokinn góði hafi virkað eins og til var ætlast, en til viðbótar voru á staðnum traustir félagar, rétt útbúnir ef til leitar hefði komið. Smári segir þá hafa frá upphafi sýnt rétt viðbrögð og kallað eftir hjálp, en hún var síðar afþökkuð þegar ljóst var að hennar var ekki þörf.