Sú áskorun byggir á þeim staðreyndum að þetta er stór náma og þeirri staðreynd að þetta er efnisnáma þar sem ætlun er að vinna berg með sprengingum og vinna grjót á staðnum. Þetta mun hafa veruleg áhrif í fjölsóttasta útivistarsvæði Akureyringa og Eyfirðinga í Kjarnaskógi, að mati umhverfisnefndar. Gera má ráð fyrir hljóðmengun vegna sprenginga og vinnslu grjóts, reikna má með verulegu fallryki af þeirri vinnslu og síðast en ekki síst munu þessar framkvæmdir blasa við gestum Kjarnaskógar þegar komið er á hin nýju og vinsælu svæði uppi á klettum. Jafnframt mun stóraukin umferð stórra og þungra bíla hafa veruleg áhrif til hins verra. Jafnframt bendir umhverfisnefnd á að umsjónarnefnd verndarsvæðis í óshólmum Eyjafjarðarár þarf að fá kynningu og gefa umsögn um fyrirhugaða efnistöku við Eyjafjarðarbraut eystri áður en tillagan er auglýst.
Eyjafjarðarsveit kynnti þann 23. mars sl. tillögu að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins. Meðal annars voru kynnt sérstaklega áform um ný efnistökusvæði, þar á meðal nýtt svæði í friðlandi óshólma Eyjafjarðarár og nýtt efnistökusvæði í landi Hvamms.