Tilgangur með könnuninni er að kanna umferðarmynstur á utanverðum Tröllaskaga yfir sumartímann og öðlast þekkingu á ferðavenjum einstaklinga á svæðinu. Einnig fást upplýsingar um umferð á milli einstakra staða og landsvæða, sem síðar gætu nýst við almenna áætlanagerð. Um er að ræða hluta af rannsóknarverkefni um áhrif Héðinsfjarðarganga á samfélag og byggð. Framkvæmd umferðarkönnunarinnar verður með þeim hætti að allar bifreiðir, sem koma að könnunarstað, verða stöðvaðar og bílstjórar spurðir nokkurra spurninga. Vonast er til að vegfarendur, sem leið eiga um könnunarstaðina, taki starfsmönnum Háskólans vel og jafnframt er beðist velvirðingar á töfum sem kunna að hljótast af þessum sökum.