Helstu ástæður fyrir betri rekstrarárangri eru í meginatriðum fjórþættar: hærri tekjur og lægri útgjöld en áætlun gerði ráð fyrir, auk þess lækkaði lífeyrisskuldbinding og söluhagnaður varð við sölu á hlutafé Norðurorku í Þeistareykjum ehf. Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, Fasteignir Akureyrarbæjar, Framkvæmdamiðstöð og Eignasjóð gatna. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Félagslegar íbúðir, Fráveita Akureyrabæjar, Strætisvagnar Akureyrabæjar, Öldrunarheimili Akureyrabæjar, Framkvæmdasjóður Akureyrarbæjar, Bifreiðastæðasjóður Akureyrabæjar, Hafnarsamlag Norðurlands, Norðurorka hf, Heilsugæslustöðin á Akureyri, Byggingasjóður Náttúrufræðistofnunar og Gjafasjóður Öldrunarheimila Akureyrarbæjar.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 2.246 millj. kr. og handbært fé frá rekstri 2.297 milljónir króna. Fjárfestingarhreyfingar námu samtals 2.294 milljónum. Fjármögnunarhreyfingar námu samtals 1.261 milljónum króna. Afborgun langtímalána nam 2.553 milljónum. Ný langtímalán námu 1.653 milljónum. Handbært fé sveitarfélagsins í árslok var 2.219,4 milljónir króna. Heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda hjá samstæðunni voru 6.438.503 þúsundir króna. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 1.515 sem er fækkun um 20 frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess voru 52,9%. Annar rekstrarkostnaður var 30,1% af rekstrartekjum. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 412 þúsund krónur á hvern íbúa en tekjur samtals 855 þúsund krónur á hvern íbúa. Árið 2008 voru skatttekjurnar 383 þúsund krónur á hvern íbúa og heildartekjurnar 798 þúsund krónur.
Eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi eru bókfærðar á 36.050 milljónir króna, þar af eru veltufjármunir 4.301 milljónir. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nema samkvæmt efnahagsreikningi 23.520 milljónum króna, þar af eru skammtímaskuldir 4.581 milljónir. Veltufjárhlutfallið er 0,94 í árslok, en var 0,98 árið áður. Bókfært eigið fé nemur 12.531 milljónum króna í árslok en nam árið áður 4.706 milljónum. Eiginfjárhlutfall á árlok var 35%.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hann til umfjöllunar í bæjarstjórn Akureyrar 27. apríl og 4. maí nk. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.