Samkvæmt upplýsingum Ingbjargar Aspar Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Hofs, er verið að vinna úr umsóknum þessa dagana og er stefnt að því að ganga frá ráðningum sem allra fyrst. Umsjónarmaður fasteigna annast m.a. alla almenna umsýslu og daglegan rekstur á húsinu og hefur yfirumsjón með hússtjórnarkerfi, framkvæmdum og viðhaldi. Tæknistjóri heldur m.a. utan um alla tæknivinnu í Hofi, ber ábyrgð á öllum búnaði sem tilheyrir húsinu, viðhaldi hans og mögulegum inn- og útlánum. Starfsmaður í móttöku og miðasölu sinnir m.a. upplýsingamiðlun til gesta hússins, annast símsvörun og hefur yfirumsjón með miðasölu í húsinu, uppgjörun og aðstoð við markaðssetningu. Markaðsfulltrúi hefur m.a. umsjón með heimasíðu félagsins og vinnur að markaðssetningu hússins gagnvart mögulegum notendum og gestum, vinnur kynningarefni, auglýsingar, birtingaáætlanir og fleira.
Í Menningarhúsinu Hofi verður aðsetur Tónlistarskólans á Akureyri, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Akureyrarstofu og Upplýsingamiðstöðvar ferðamála. Leikfélag Akureyrar verður stór notandi í húsinu en þar verður jafnramt rekin verslun, kaffihús og veitingaþjónusta.