Um 15 þúsund gestir heimsóttu Flugsafn Íslands í fyrra

Liðlega fimmtán þúsund gestir sóttu heim Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli á síðasta ári. Það er meira en helmings fjölgun  frá árinu 2008. Þessi aðsókn er mun meiri en reiknað var með í upphafi ársins 2009.  Aukin ferðalög Íslendinga innanlands eiga eflaust stóran þátt í þessari ánægjulegu aukningu.  

Flugsafnið hélt upp á tíu ára afmæli sitt þann 1. maí og komu rúmlega þrjú þúsund gestir þann daginn til að skoða safnið og þiggja veitingar.  Aðal opnunartími safnsins var frá 1. Júní til 31. ágúst.  Eftir það var opið á laugardögum og eftir samkomulagi.  Mikið er um það að fyrirtæki og félög, auk vina- og starfsmannahópa vilji halda fundi og móttökur í safninu og má nefna að í tengslum við ráðstefnu og æfingu strandgæslna við Norður- Atlandshaf s.l. sumar var haldin 120 manna móttaka þar sem komu gestir frá 17 þjóðlöndum. Einnig hélt Samherji rúmlega 200 manna samkomu þar sem afhentar voru viðurkenningar til íþróttafélaga og annarra við Eyjafjörð. Það má áætla að 10 til 12 af hundraði gesta ársins séu erlendir ferðamenn.

Í Flugsafni Íslands eru að jafnaði hátt í 30 flugvélar og flugtæki til sýnis, auk allskonar búnaðar sem tengist flugi.  Margar gamlar merkar flugvélar eru í safninu og fer þeim fjölgandi. Nú er til dæmis beðið eftir Waco flugvél, en hún er sömu gerðar og TF-ÖRN, sem var fyrsta flugvél sem keypt var af Flugfélagi Akureyrar til farþegaflugs á Íslandi 1938.

Nýjast