Um 100 matjurtagarðar standa fólki til boða í vor

Bæjarbúum býðst aðgangur að matjurargörðum í vor en hugmyndin komin frá Jóhanni Thorarensen garðyrkjumanni hjá Akureyrarbæ. Jóhann segir að í boði verði tvær stærðir af görðum, 15 fermetrar og 30 fermetrar. Verð fyrir minni garðinn er 6.000.- krónur en 10.000.- krónur fyrir þann stærri og sagðist Jóhann vonast til að hægt verði að bjóða upp á 100 garða á svæðinu.  

Innifalið í verðinu eru matjurtir, fræ og kartöfluútstæði, auk þess sem fólk á þess kost að fá leiðbeiningar og ráðgjöf. Fólk fær garðinn tættan en þá á eftir að moka götur og reyta illgresi. Svæðið sem um ræðir er suður af gömlu Garðyrkjustöðinni á Krókeyri. Jóhann segir þetta svæði upplagt til ræktunar, enda sé þar gott skjól og vaxtarskilyrði góð. Þar hafði verið stunduð trjárækt í áratugi. Hann segist hafa orðið var við mikinn áhuga meðal bæjarbúa og nefndi sem dæmi að um 30 manns hefðu sótt námskeið hjá Garðyrkjufélagi Akureyrar á dögunum. "Menn eru farnir að horfa til þess að móður jörð getur gefið vel af sér, ef unnið er við hana. Þetta getur verið góð búbót og það getur líka myndast skemmtilegur félagskapur í kringum þetta verkefni," sagði Jóhann. Hann vonast til að áhugasamir geti hafist handa á svæðinu um miðjan maí í vor. Skráning fer fram í Ráðhúsinu á Akureyri.

Nýjast