Tvö tónverk eftir Jón Hlöðver Áskelsson verða flutt á opnunartónleikum Orgelsumars í Hallgrímskirkju á sunnudaginn, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Annað verkanna sem flutt verða er tónverkið Arngrímur Brandsson. Tónverkið Arngrímur Brandsson, er fyrir selló og orgel og er í þremur þáttum og var upphaflega frumflutt að Þingeyrum þ. 9. sept. 2007 á hátíð sem í tilefni þess að þá voru 130 ár liðin frá vígslu hinnar stórkostlegu Þingeyrarklausturkirkju. Nafn verksins er til heiðurs þeim viðburði og jafnframt því að Arngrímur Brandsson ábóti í Þingeyrarklaustur er fyrsti nafngreindi íslenski maðurinn sem lék á organ og smíðaði. Nú hljómar verkið í glæsilegum Klaisorgelbúningi Það eru Hörður Áskelsson, organisti Hallgrímskirkju og Inga Rós Ingólfsdóttir, sellóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem leika á þessum fyrstu tónleikum Alþjóðlegs orgelsumars 2012.
Hörður á 30 ára starfsafmæli við Hallgrímskirkju í ár og eru Listvinafélag Hallgrímskirkju, Kirkjulistahátið, Alþjóðlegt orgelsumar, Klais orgelið, Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum afrakstur listrænnar stjórnunar hans frá árinu 1982, þegar hann var ráðinn sem organisti og kórstjóri Hallgrímskirkju. Þau hjónin hafa verið mikilvirk í íslensku tónlistarlífi og komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum viða um heim og hefur Hörður haldið orgeltónleika í mörgum helstu kirkjum Evrópu, m.a. í tvígang í Kölnardómkirkju fyrir 3000 áheyrendur. Þau hafa leikið saman á fjölmörgum tónleikum hér heima og erlendis, nú síðast í Bandaríkjunum í maí 2012. Þau munu leika vel þekktar perlur eftir Saint-Saëns og Rachmaninoff auk verka eftir Höller, Jón Leifs, Jón Hlöðver Áskelsson og Kjell Mörk Karlsen.
Jón Hlöðver fæddist árið 1945. Hann hefur alið sína ævidaga á Akureyri með tónlist og tónsmíðar að aðalstarfi. Honum hefur hlotnast margs konar heiður fyrir tónverk sín og fjölbreytt störf að ýmsum málefnum í þágu síns bæjar og þjóðar.