Tveir karlmenn voru í dag dæmdir í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir líkamsárásir sem áttu sér stað í fyrra og árið 2005. Mennirnir hlutu báðir tveggja ára fangelsisdóm, en annar þeirra fékk skilorðsbundinn dóm. Annar mannanna sem dæmdur var, réðst á mann við íbúðarhús í Klettaborg á Akureyri í desember 2005. Virðist sem maðurinn hafi verið að innheimta skuld en þegar það gekk ekki eftir sló hann hinn í andlitið og nefbrotnaði sá auk þess að hljóta fleiri áverka á höfði. Tveggja ára dómur yfir árásarmanninum var óskilorðsbundinn og á hann einnig að greiða 172 þúsund krónur í sakarkostnað. Hinn árásarmaðurinn réðst á annan á félagssvæði Þórs um verslunarmannahelgina á síðasta ári og veitti honum hnefahögg í andlit. Sá sem fyrir árásinni varð hlaut gríðarlegar blæðingar við auga og fleiri alvarlega áverka. Tveggja ára fangelsisdómur yfir árásarmanninum var skilorðsbundinn til tveggja ára og honum var gert að greiða 213 þúsund krónur í sakarkostnað.