Það dylst engum sem fylgjast með fréttum að staða þessarar mikilvægu atvinnugreinar í okkar samfélagi er um þessar mundir erfið. Í byggingariðnaðinum á landsvísu hafa á síðustu misserum starfað um 16.000 manns og hefur hlutfall þeirra sem í þessari grein hafa starfað á Norðurlandi síst verið lægra en landsmeðaltal. Það skiptir því miklu máli fyrir svæðið í heild að þessi atvinnugrein stöðvist ekki. Stjórn Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi hvetur sveitarstjórnir á starfssvæði félagsins til að hafa frumkvæði að því að tryggja að byggingaframkvæmdir stöðvist ekki í landshlutanum. Sveitarfélögin og öll fyrirtæki á Norðurlandi stór og smá verða nú að velta hlutunum fyrir sér að nýju og forgangsraða verkefnum með tilliti til atvinnusköpunar. Þá bendir félagið á að nú er rétti tíminn til að sinna viðhaldsframkvæmdum þar sem þær eru í senn mannaflafrekar og krefjast í fæstum tilfellum mikilla innkaupa á efni erlendis frá.
Þá hvetur félagið til þess að bæjar- og sveitarstjórnir á Norðurlandi til þess að veita fyrirtækjum í byggingariðnaði svigrúm til aðlögunar á breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði með sveigjanleika varðandi greiðslur gatnagerðargjalda, en slík fyrirgreiðsla getur haft veruleg áhrif á áframhald framkvæmda í greininni.
Stjórn Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi hvetur til þess að strax verði tekið á þessum vanda og tryggt að áfram verði öflugur byggingariðnaður á Norðurlandi, en öflugur byggingariðnaður er oft besti mælikvarðinn á gróskuna í samfélaginu, segir í fréttatilkynningu.