Það verður toppslagur á Þórsvelli í kvöld þegar Breiðablik sækir Þór/KA heim á Þórsvöll kl. 18:30 í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu en heil umferð fer fram í deildinni í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum með tíu stig hvort þegar fjórar umferðir eru liðnar af deildinni en Blikar sitja í efstu sætinu með hagstæðari markatölu. Blikar eru með mjög sterkt lið og þetta verður eflaust hörkuleikur," segir Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA um leikinn í kvöld. "Mannskapurinn hjá liðinu er gríðarlega öflugur og þetta lið á að vera toppnum með þessa leikmenn. Við getum hins vegar unnið öll lið á heimavelli og þetta verður spennandi og skemmtilegt verkefni."
Rakel Hönnudóttir, leikmaður Breiðabliks, er að fara að mæta sínu gamla félagi en hún er uppalin Þórsari og hefur verið lykilmaður og fyrirliði Þórs/KA undanfarin ár.
Þetta verður örugglega mjög erfitt og skrýtin tilfinning að mæta á Þórsvöll sem gestur, segir Rakel, en hún reiknar með hörkuleik í kvöld. Þarna mætast efstu tvö liðin og það eru yfirleitt spennandi leikir. Þór/KA hefur komið mér nokkuð á óvart þessa fyrstu leiki og liðið held ég aldrei byrjað svona vel, sagði Rakel.
Þá er Hlynur Svan Eiríksson þjálfari Breiðabliks einnig að mæta á fornar slóðir en hann stýrði liði Þórs/KA síðasta sumar.