Topp 5 listi vikunnar: Skyndibiti

Topplisti vikunnar er skyndibiti
Topplisti vikunnar er skyndibiti

Þá er hann kominn Topp 5. listi vikunnar. Að þessu sinni er það Magnús Pétur Guðmundsson tölvukall hjá Þekkingu sem er topplistamaðurinn okkar. Magnús ætlar að segja okkur frá uppáhalds skyndibitanum sínum. Hann býr í dag á Akureyri með unnustu sinni Dagnýju Theodórsdóttur og syni þeirra Ými 2 ára. Magnús hefur lengst af alið manninn í Reykjavík og á Sauðárkróki, hann segist hafa prófað burgerinn í Kántríbæ en ber honum ekki vel söguna.

Magnús skorar á Óskar Þór Vilhjálmsson til þess að koma með topp 5 eftirréttina sína.

Hér koma topp 5. skyndibitar Magnúsar:

Nr. 5 Hlölli

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar talað var um Hlölla var djúsí bátur með öllu sem fylgdi. Í dag er sagan önnur því núna fer ég með ögn betri samvisku og fæ mér djúsí salat í staðinn. Eftir töluverðar prófanir hef ég fundið uppskrift sem hentar mér fullkomlega. Það er lítið salat með piri-piri sósu, skipta svo út gúrkum og tómötum fyrir steiktan lauk og sveppi og steikja svo sveppina og kjúklinginn í sósunni. Algert lostæti.

Hlölli

Nr. 4 Pítan

Mér hafa þótt pítur afskaplega góðar frá því að ég var lítill gutti. Ég man eftir því að vera 8 ára gamall og fara beint eftir skóla til Jónu frænku sem vann þá á Pítunni og hún gaf mér alltaf pítu og Sanítas malt á meðan ég horfði á Strumapana í barnahorninu. Ég held að þessi minning láti mér finnast maturinn þar bragðast extra vel.

Píta

Nr. 3 Dominos Pizza

Eflaust mitt mesta "guilty pleasure" á þessum lista. Ég get ekki talið hversu oft mér hefur dottið í hug að panta mér Pizzu frá þeim en endað svo á því að fá mér bara ristað brauð með osti. En þegar ég hef ákveðið að láta vaða á það, verð ég eins og 5 ára krakki í nammilandi á meðan ég fer yfir matseðilinn og enda þá oftast á því að fá mér Meat and Cheese.

Dominos Pizza

Nr. 2 Bæjarins Bestu

Það þarf nú varla að nefna hvers vegna þessi staður er á þessum lista. Pylsurnar sem eru gerðar þarna hljóta að vera búnar til úr strumpaberjum og einhyrningsdufti, því þótt maður sé nýbúinn að borða á nálægum veitingastað getur maður alltaf hugsað sér að stoppa þar við og fá sér eina með öllu. Ég geri mér samt fyllilega grein fyrir að þetta er bara sykur, fita og salt en maður vill samt halda í barnið í sér.

Bæjarins bestu

 Nr. 1 McDonalds

Það eru nú liðin nokkur ár frá því að McDonalds flúði frónið en ég fæ samt enn löngun til að renna í lúguna hjá þeim og kaupa mér 2 ostborgara og appelsínusafa. Í fyrstu skipti sem ég fór þangað smakkaði ég hamborgarann og Big Mac-inn og þótti mér ekki mikils til þessa staðs koma. Svo eftir nokkur skipti fór ég að kunna að meta ostborgann í sínum fullkomnu hlutföllum. Metro stendur sig ágætilega sem staðgengill en það var bara einhver fílingur sem fylgdi því að fá McDonalds pokann í hendurnar. 

Mcdonalds

EPE

Nýjast