„Tónlistarskólinn hefur líklega aldrei verið sprækari en einmitt nú á þessum tímamótum,“ segir Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. Skólinn fagnaði 70 ára afmæli sínu í lok janúar og verður tímamótanna minnst með margvíslegum hætti fram eftir vori. Hjörleifur Örn hefur stjórnað skólanum síðastliðin átta ár, kom til starfa nokkru fyrir efnahagshrun sem gjörbreytti öllum áætlunum í starfi skólans og hefur verið að fást við afleiðingar þess undanfarin ár. Þau málefni sem heitast brenna um þessar mundir snúast um að efla og auka tónmenntakennslu í grunnskólum bæjarins, en á þeim vettvangi er víða pottur brotinn. Tónmenntakennsla er nú einungis í þremur af sjö grunnskólum Akureyrar og ljóst að klífa þarf nokkrar brekkur áður en viðunandi og góð staða næst.
Ítarlegt viðtal er við Hjörleif í prentútgáfu Vikudags.