Tónleikar tvö kvöld um verslunarmannahelgi á Akureyrarvelli

Samkomuhald sem var á flötinni við Leikhúsið verður fært á Akureyrarvöll .Tvö tívolí verða á svæðinu…
Samkomuhald sem var á flötinni við Leikhúsið verður fært á Akureyrarvöll .Tvö tívolí verða á svæðinu og matarvagnar.

„Við höfum lengi horft til Akureyrarvallar með hátíðahöld verslunarmannahelgarinnar og nú prófum við það. segir Davíð Rúnar Gunnarsson hjá Viðburðarstofu Norðurlands sem sér um hátíðin Ein með öllu um verslunarmannahelgi á Akureyri. Samkomuhald sem var á flötinni við Leikhúsið verður fært á Akureyrarvöll. Margt sé spennandi og jákvætt við flutninginn.

Viðburðarstofa Norðurlands lagði fram umsókn um að halda tónleika á Akureyrarvelli laugardagskvöldið 2. ágúst næstkomandi, þ.e. laugardagskvöldið um verslunarmannahelgi. Yfirskrift tónleikanna er Öll í einu. Fyrir liggur samþykki KA fyrir notkun svæðisins. Er þar um að ræða viðburð sem ekki er hluti af samningi Akureyrarbæjar og Viðburðastofu Norðurlands um Verslunarmannahelgina 2025 en notast er við sama viðburðarsvæði. Skipulagsráð hefur samþykkt erindið.

Selt verður inn á tónleikana Öll í einu á laugardagskvöldið og segir Davíð Rúnar að þá þurfi að vera fyrir hendi lokað svæði. Akureyrarvöllur henti því vel. Lokatónleikar verslunarmannahelgar voru fyrir allmörgum árum á Akureyrarvelli en þá var völlurinn sjálfur lokaður og gestir voru í stúku og svæðinu umhverfis hana.

Margt jákvætt við að færa hátíðarsvæðið

„Nú fáum við allan völlinn til umráða og það breytir miklu. Við vonum svo sannarlega að þetta muni koma vel út og erum sannfærð um það,“ segir Davíð Rúnar. Bílastæðamál séu sem dæmi í betra horfi umhverfis Akureyrarvöll og fleiri möguleikar í boði en var í kringum Leikhúsflötina. Auk þess þurfi ekki að grípa til götulokana sem er dýr póstur. Svæðið neðan Leikhússins var líka að verða of lítið miðað við þann mannfjölda sem sótti Sparitónleika og tré í brekkunni skyggðu á sviðið.

Vissulega sé ókostur að hafa ekki bátana á siglinu á Pollinum en þeir settu mikinn svip á Sparitónleikana. „Það verður flugeldasýning en við skoðum á hvern hátt við getum haft bátana með, það er vilji til þess meðal eigenda smábáta að sigla inn á Poll,“ bætir hann við.

Tvennir stórir tónleikar auk þéttrar dagskrár frá föstudegi til sunnudagskvöld gera að verkum að hátíðin Ein með öllu verður með stærri hátíðum verslunarmannahelgarinnar. „Með því að færa hátíðahöldin á Akureyrarvöll viljum við líka sýna Akureyringum hversu frábæran stað þeir eiga í hjarta bæjarins, stað sem hentar fullkomlega fyrir stóra viðburði. Vonandi verður hann þarna áfram,“ segir Davíð Rúnar.

Nýjast