Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á sunnudag

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verða í Glerárkirkju sunnudaginn 15. nóvember kl. 16:00. Á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir S. Prokofieff, R. Wagner og L.van Beethoven. Stjórnandi á tónleikunum er Guðmundur Óli Gunnarsson. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er nú á sínu 17. starfsári og hefur starfsemi hljómsveitarinnar aukist jafnt og þétt með hverju árinu.   

Á tónleikunum á sunnudag tekst hljómsveitin á við tvær sinfóníur. Annarsvegar er það sinfónia eftir Sergei Prokofieff, oft nefnd Klassíska sinfónían. Sagt er að Prokofieff hafi samið þessa sinfóníu þegar hann dvaldi í fríi úti á landi og notaði hana sem æfingu í að semja án þess að hafa píanó sér til halds og trausts. Sinfónía sem var frumflutt árið 1918 er afar þekkt verk og ýmis stef úr henni oft notuð í auglýsingar og sjónvarpsefni.

Hin sinfónían sem flutt verður er Sinfónía nr. 8 í F dúr eftir L.van Beethoven sem frumflutt var árið 1814. Þessi sinfóníu kallaði Beehoven "litlu sinfónían", enda mun minni í sniðum en aðrar sinfóníur hans. Þessi sinfónía einkennist þó ekki síður af krafti, sjálfstæði og frumleika. Um hana hefur verið sagt að hún sé sem hlátur manns sem hefur lifað og þolað ýmislegt á leið sinni á toppinn. Eftir Wagner verður flutt Sigfried Idyll eða Sveitasæla Sigurðar Fáfnisbana, en þetta verk samdi Wagner sem afmælisgjöf til konu sinnar. Verkið er blítt og rólegt enda Wagner uppnumin af ástinni á þessum tíma.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 Kjarni hljómsveitarinnar hefur frá upphafi verið kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri og hópur hljóðfæraleikara sem býr og starfar á landsbyggðinni. Guðmundur Óli hefur verið stjórnandi sveitarinnar frá upphafi. Forsala aðgöngumiða er á midi.is en aðgangur er ókeypis fyrir 20 ára og yngri.   

Nýjast