Tomoo Nagai heldur tónleika í Listasafninu

Tomoo Nagai
Tomoo Nagai
Á morgun, sunnudaginn 14. júní kl. 17:00, heldur japanski listamaðurinn Tomoo Nagai tónleika í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Tomoo segist notar hljóð á svipaðan hátt og málari notar liti – til að fylla rými. 

„Hugmyndirnar sem tónlistin kallar fram eru skilgreindar út frá samspili sem verður til milli efnisins og  rýmisins sem unnið er í hverju sinni. Tré, málmur, steinn, jörð, vatn, svo ótalmargir þættir í náttúrunni búa yfir ótrúlega hljómsterkri fegurð. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að hlusta eftir þessari fegurð.“

Tomoo er staddur hér á landi í tengslum við sýningu Mireyu Samper, Endurvarp, í Listasafninu á Akureyri en hann tekur þátt í gjörningi á opnun sýningarinnar laugardaginn 13. júní kl. 15.30 og aftur sunnudaginn 14. júní kl. 14, ásamt japönsku gjörningarlistkonunni Kana Nakamura.

Eftir meistaranám í Listaháskólanum í Tókýó hefur Tomoo komið víða við innan tónlistarbransans s.s. í djassi, upptökum, kvikmyndatónlist, gjörningalist og hönnun hljóðfæra. Hann hannar sjálfur eða býr til meirihluta þeirra hljóðfæra sem hann notar.

Aðgangseyrir á tónleikana á sunnudag er kr. 1000.

Nýjast