„Sumarið var ágætt og fólki gekk betur að fá vinnu en margir þorðu að vona, en nú í haust hefur á ný fjölgað á skránni," segir Soffía. Alls eru rúmlega 1300 manns á atvinnuleysisskrá á Norðurlandi eystra, en um 30% hópsins eru í hlutastarfi á móti atvinnuleysisbótum. Hlutfallið er líkt og áður hærra norðan heiða en annars staðar og segir Soffía að þar skipti nærsamfélagið eflaust mestu. Atvinnurekendur kappkosti að halda sem flestum starfsmönnum og starfsmennirnir reyni líka sjálfir að skipta með sér þeirri vinnu sem til staðar er fremur en að horfa á eftir félögum af vinnustaðnum. Soffía segir að framundan séu erfiðir mánuðir, „við getum búist við að það verði fremur þungt fyrir fæti fram á vorið, næstu þrír mánuðir verða örugglega erfiðir," segir hún.