Um þessar mundir er í gangi svo kallað Umhverfisátak í Norðurþingi sem felur m.a. í sér hvatningu frá sveitarfélaginu til íbúa, fyrirtækja og stofnana til að huga að umhverfi sínu og fegra það.
Markmið átaksins eru m.a. að fegra umhverfi, bæta ásýnd og auka staðarstolt en jafnframt að fyrirtæki bæti umgengni og virði lóðamörk þar sem það á við.
Þá er stefnt á að veita viðurkenningar í tengslum við dagskrá Mærudaga í ár fyrir Snyrtilegasta býlið, snyrtilegustu lóð fyrirtækis eða stofnunar, Plokkara ársins og snyrtilegustu lóðina. Frestur til að skila inn tillögum til sveitarfélagsins átti upphalfega að renna út á þriðjudag sl. en var framlengt til 15 júlí.
Hvort umhverfisátakið hafi eitthvað með það að gera þá rakst blaðamaður á þrjár konur á besta aldri á dögunum en þær voru önnum kafnar við að rífa upp illgresi og snyrta til við annars fallegan göngustíg sem tengir Höfðaveg og Héðinsbraut og liggur meðfram veitingastaðnum Hlöðufelli.
Stígurinn er í sjálfu sér metnaðarfullt verkefni með flottri hellulögn og fjölbreyttum gróðri en hefur verið í nokkurri órækt síðustu ár. Þessu tóku þær eftir, konurnar sem minnst var á, þær Sigríður Þórdís Einarsdóttir, Lilja Jónsdóttir og Vilhelmína Ásdís Kjartansdóttir.
„Við göngum þennan stíg svo oft og töluðum um að þetta væri komið í svo mikla órækt. Þannig að við tókum okkur bara til og hófumst handa við að hreinsa þetta,“ sögðu þær og bættu við að þetta væri talsverð vinna.
,,Við eyddum fleiri klukkutímum í þetta í síðustu viku og tókum svo einn dag í byrjun þessarar viku. En svo höfðum við samband við þjónustumiðstöð bæjarins sem tók okkur vel og þeir ætla að setja Vinnuskólann í að klára verkið,“ segir Vilhelmína að lokum.