Kostnaður er álíka mikill og við kaup á hefðbundnu eldsneyti, en fyrst og fremst er ávinningurinn sá að um mun umhverfisvænni orkugjafa er að ræða. Lífdísillinn er framleiddur hjá fyrirtækinu Orkey, en það var stofnað fyrir um þremur árum. Á vegum þess hefur verið unnið að því að kanna ýmsa möguleika á framleiðslu lífdísels, jafnt úr innlendu sem erlendu hráefni. Stefnt er að því að framleiða um 300 tonn af lífdísel á ársgrundvelli og verður hann að mestu unninn úr úrgangssteikingarolíu og feiti auk annars úrgangs.
Stefán segir að nýliðið ár hafi verið svipað og árið þar á undan hvað farþegafjölda hjá Strætisvögnum Akureyrar varðar, um 2000 farþegar á dag að jafnaði. „Við eigum allt eins von á að þeim fjölgi í ár," segir hann og nefndi í því sambandi hækkandi eldsneytisverð og lakari fjárhag almennings en áður. „Við erum í stakk búin til að taka við fleiri farþegum," segir hann.
Nýtt leiðakerfi var tekið í notkun nýverið m.a. til að bæta þjónustu við farþega. Ferðum um Naustahverfi og til og frá hverfinu var fjölgað og þá var þjónusta við nemendur í framhaldsskólum bæjarins aukin sem og við háskólann, en einnig var gerð breyting sem miðar að betri tengingu milli Brekkunnar og Bogans í Glerárhverfi.