Samhliða komi til framkvæmda nauðsynlegar breytingar á starfsmannahaldi sem m.a. miða að því að draga úr yfirbyggingu. Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður í Eyjafirði og lögreglustjóri á Akureyri segir að málið hafi lítið verið kynnt, en hann gerir ráð fyrir að þeir þrír mánuðir sem líða frá því að formlega er stofnað til nýrra embætta og þar til hið nýja skipulag taki gildi verði nýttir til að vinna að framgangi nauðsynlegra breytinga sem tillögurnar fela í sér og að móta meginþætti í starfsemi nýrra embætta.
„Ég tel að þetta eigi að geta orðið til bóta fyrir löggæsluna og hagræðing af þessu tagi mun gera henni kleift að spara þá fjármuni sem henni er gert án þess að það bitni á löggæslunni," segir Björn Jósef. Með einu embætti verði til staðar aukin þekking innan þess og þá eigi hreyfanleiki lögreglumanna innan svæðisins að verða meiri en nú er. Hagræðing og sparnaður næst með því að fækka yfirmönnum, en fleiri lögreglumenn verði að störfum út á akrinum. Yfirstjórn verði einfaldari og skilvirkari og lögreglan sýnilegri. Það muni hafa í för með sér betri möguleika innan lögreglunnar að mæta niðurskurði í fjárveitingum sem fyrirhugaðar eru án þess að hann komi niður á grunnþjónustu.