Til skoðunar að kaupa kennslu fyrir atvinnulausa í framhaldsskólum

Vinnumálastofnum er að velta því fyrir sér að kaupa kennslu fyrir atvinnulausa í framhaldsskólum. Horfur á næsta ári eru heldur skárri en reiknað var með og er gert ráð fyrir aðeins minna atvinnuleysi en á þessu ári en hvert prósent í atvinnuleysi kostar ríkið 3 milljarða króna.  

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bókun frá fundi Almannaheillanefndar Akureyrar, sem haldinn var fyrir helgi. Gestir fundarins voru Gissur Pétursson og Unnur Sverrisdóttir frá Vinnumálastofnun. Gissur fór yfir átak sem félagsmálaráðherra kynnti sl. fimmtudag, sem snýr að ungu og ómenntuðu fólki. Hann taldi þetta metnaðarfullt átak og kosturinn að gera ekki neitt er ekki í boði. Fyrirhugað er að breyta atvinnuleysisbótakerfinu gagnvart sjálfstætt starfandi atvinnurekendum og bakka út úr núverandi kerfi. Samvinna allra í samfélaginu er nauðsynleg og sveitarfélögin þurfa líka að skapa starfsþjálfunarúrræði fyrir atvinnulausa.

Hjá Vinnumálastofnun er raunfærnimat byrjað og búið að tala við marga karlmenn. Talað verður við unga fólkið eftir áramót. Mögulega eru ýmis tækifæri fyrir þessa einstaklinga og það verður val fyrir þá um tækifæri en ekki að gera ekki neitt. Atvinnulausir á aldrinum 16-24 ára eru 154. Um þessi áramót detta 35 manns út af atvinnuleysisbótum vegna tímalengdar á bótum og eiga þessir einstaklingar ekki mögulegan bótarétt fyrr en eftir 2 ár ef þeir hafa unnið í 6 mánuði eða lengur á þeim tíma. Haft verður samstarf við fjölskyldudeild vegna þessara einstaklinga. Á Akureyri eru 902 atvinnulausir, sem er fjölgun um 56 á síðustu 4 vikum. Um er að ræða 489 karla og 413 konur. Um 30% atvinnulausra eru í hlutastarfi.

Nýjast