Þýskir kvikmyndagerðarmenn gera bíómynd um jólasiði á Íslandi

Þýskir kvikmyndagerðarmenn eru staddir hér á landi þessa dagana  en tilgangurinn með heimsókninni er að gera 45 mínútna bíómynd um jólasiði á Íslandi. Hópurinn hefur átta daga til að vinna myndina, sem á svo að sýna næsta haust á þýskri sjónvarpsstöð, sem sendir út um allt Þýskland.  

Þýsku gestirnir voru staddir á Norðurlandi um helgina og heimsóttu m.a. Friðrik V. Karlsson veitingamann á Friðriki V, auk þess að fara vítt og breitt um Akureyri með kvikmyndavélina, til að mynda jólaskreytingar, jólatréð og  jólaköttinn á Ráðhústorgi og fleira. "Þeir voru tvo daga með okkur á veitingastaðnum, fylgdust með hefðbundnu jólahlaðborði, einnig með afgreiðslu á öðrum jólamat og svo jólamarkaðnum okkar," sagði Friðrik.

Hann fór svo með hópinn í ferðalag á laugardag og sunnudag, m.a. til að kynna fyrir þeim "logal food" framleiðendur á svæðinu. "Við fórum í Mývatnssveit og heimsóttum Ólöfu Hallgrímsdóttur í Vogafjósi, fórum inn í íslenskt reykhús, þar sem verið var að reykja hangikjöt, heilsuðum upp á jólasveina í Dimmuborgum og fórum í Jarðböðin. Á sunnudag fórum við í heimsókn í Jólahúsið í Eyjafjarðarsveit, sem mér finnst svo ótrúlega flott. Þjóðverjarnir voru mjög hrifnir og fannst merkilegt að Jólahúsið væri opið allt árið. Þaðan fórum við til Elvars í Ektafiski og þar fengu gestirnir kynningu á saltfiski og að sjálfsögðu eldaði Elvar skötu handa mannskapnum. Eftir skötuveisluna var þýski hópurinn svo vígður inn í félagsskapinn The Rotten skate Club of Hauganes, en aðeins fáir útvaldir eru í þessum klúbbi."

Frá Hauganesi var haldið á Árskógssand og í heimsókn í Bruggsmiðjuna. "Það þótti einnig við hæfi að heimsækja Óla og Agnesi, smakka Kalda jólabjór og skoða bjórverksmiðjuna. Þar fórum við aðeins yfir söguna og það kom þá vel í ljós hversu okkar bjórmenning er ólík þeirri þýsku. Loks var komið við hjá Aðalheiði Eysteinsdóttur í Freyjulundi og rætt var við hana um jólakettina og engla sem hún er að gera núna."

Frá Akureyri héldu þýsku gestirnir til Reykjavíkur, þar sem þeir eyða jólunum. "Þeir ætla að mynda á Laugaveginum á morgun Þorláksmessu en verða svo hjá Herði Áskelssyni organista á sjálfum jólunum, þar sem þeir taka upp hefðbundið jólahald," sagði Friðrik.

Nýjast