Þyngri dilkar og hærra verð

Sá innleggjandi hjá Norðlenska sem fékk hæsta meðalverð fyrir sitt innlegg í nýliðinni sláturtíð fékk greiddar um 9.200 krónur fyrir hvern dilk að meðaltali að meðtöldum greiðslum frá Markaðsráði. Sá sem hins vegar fékkst lægsta meðalverð fyrir sínar afurðir fékk greiddar um 4.700 krónur fyrir hvern dilk.   

Munur á hæsta og lægsta afurðaverða er því um 4.700 krónur á hvern dilk. Reynir Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska segir í pistli á vefsíðu fyrirtækisins að ekki þurfi að hafa mörg orð um ávinning bænda af því að fá hærra meðalverð fyrir afurðir sínar, hann sé umtalsverður. Alls var slátrað ríflega 108 þúsundun fjár nú í haust, þar af rösklega 77 þúsund á Húsavík.  Dilkar voru mun þyngri en í fyrra og að sama skapi voru kjötgæði meiri en í fyrrahaust.  Meiri meðalþungi nú í haust miðað við í fyrra nemur tæplega 0,9 kílóum á dilk sem hefur í för með sér að þó sláturfé hafi fækkað á Húsavík samanborið við haustið 2007 skilaði nýafstaðin sláturtíð meira kjötmagni en í fyrra.  Meðalþyngd dilka var 16,09 kíló samanborið við 15,21 kíló í fyrra. 

Nýjast