„Þurfum tvo kuldakafla í viðbót“

Snjóframleiðsla er í fullum gangi í Hlíðarfjalli.
Snjóframleiðsla er í fullum gangi í Hlíðarfjalli.

Vegna snjóleysis frestast opnun Hlíðarfjalls ofan Akureyrar um viku en fyrirhugað var að opna um komandi helgi. „Eins og staðan er núna er ekki hægt að renna sér frá skíðahótelinu niður í Fjarkann," segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli.  "Við erum að framleiða snjó á fullu en við þurfum tvo kuldakafla í viðbót til þess að geta opnað. Það er spáð frosti um helgina og við ætlum að nýta þann tíma í snjóframleiðslu,“ segir Guðmundur Karl.

Skíðasvæðið mun opna á fimmtudaginn eftir viku, þann 3. desember og verður þá opið frá kl. 18:00 til 21:00. Guðmundur segir lyfturnar Fjarkann og Töfrateppið opnaðar fyrst um sinn en einhver bið sé í að hægt verði að renna sér niður efstu brekkurnar. „Það þarf sennilega að moka götur Akureyrarbæjar fyrst áður en við getum opnað Strýtuna,“ segir Guðmundur í léttum dúr.    

Nýjast