Þurftu sjálfir að borga 60 þúsund krónur í ferðinni

Leikmenn U-21 árs landsliðs karla í handbolta þurfa sjálfir að greiða hluta af kostnaði við ferðalög liðsins til útlanda. Akureyringar áttu þrjá fulltrúa í U-21 árs landsliðinu sem ferðaðist til Hollands um páskana, til að leika í undankeppni Heimsmeistaramótsins, þá Heiðar Þór Aðalsteinsson, Odd Gretarsson og Anton Rúnarsson.  

Þeir ásamt öðrum leikmönnum fengu að vita tveimur dögum fyrir ferðalagið að þeir þyrftu að borga rúmar 60 þúsund krónur fyrir ferðina. „Við vorum í sjokki þegar við heyrðum þessa tölu, við vissum alltaf að við þyrftum að borga en ekki svona mikið því venjulega hafa þetta verið 20-30 þúsund krónur. Það er náttúrulega fáránlegt að slengja þessu bara svona fram. Þjálfarinn sagði orðrétt á æfingu að ferðin kostaði 65 þúsund og þar af þyrftum við að borga 60 þúsund" segir Heiðar Þór Aðalsteinsson, leikmaður Akureyrar og U-21 árs landsliðsins. Framundan er ferð til Egyptalands á lokakeppni HM hjá U-21 árs liðinu og segist Heiðar Þór þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en hann gefur kost á sér í ferðina vegna þess hve dýr hún er. „Ferðin kostar örugglega rúma kvartmilljón er okkur sagt. Ég veit ekki hversu mikið við þurfum að borga sjálfir en maður er farinn að hugsa málin vandlega varðandi landsliðið, því ég hef svo sannarlega ekki ótakmörkuð fjárráð," sagði Heiðar Þór.

„Ég get ekki svarað fyrir um af hverju þeir voru látnir vita svona seint en það hefði alveg átt að vera hægt að láta vita fyrr ef það er rétt að þeir hafi fengið að vita þetta með svo skömmum fyrirvara," sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ um málið.

Varðandi kostnað leikmanna sagði hann; „Við höfum því miður þurft að vinna hluta af okkar afreksstarfi á þann hátt að láta leikmenn safna fyrir ferðum. Ferðirnar hafa verið fjármagnaðar á þann hátt að leikmenn sækja um styrki til íþróttabandalaga í sínum bæjarfélögum auk þess sem félög þeirra hafa oft hjálpað eitthvað til upp í kostnaðinn og síðan kemur greiðsla frá HSÍ. Svona hefur þetta verið gert í mjög mörg ár með yngri landsliðin og því miður höfum við ekki komist út úr þessum ramma," sagði Einar.

HSÍ borgar hins vegar allan kostnað leikmanna af landsbyggðinni sem þurfa að sækja landsliðsæfingar á höfuðborgarsvæðinu, að sögn Einars. „Við borgum flug, bílaleigubíla og hótelgistingu ef þarf fyrir krakkana af landsbyggðinni og reynum að hafa algjörlega jafna aðstöðu milli þeirra og krakka sem búa á höfuðborgarsvæðinu," árettaði Einar.

Í Hollandi tryggði U-21 árs landsliðið sér þátttökurétt í lokakeppni Heimsmeistaramótsins sem fram fer í Egyptalandi. Ljóst er að gríðarlegur kostnaður verður við að fara á mótið enda um langan veg að fara. „Við erum ekki ennþá búnir að taka saman kostnaðinn en klárlega kemur þetta mót til með að kosta 250-300 þúsund á hvern leikmann, sem verður svo niðurgreitt eins og hægt er með áðurgreindum aðferðum," sagði Einar. Aðspurður sagði hann að það hafi hins vegar aldrei verið látið gerast að menn hafi þurft að draga sig út úr landsliðhópnum vegna þess að þeir hafi ekki efni á að borga ferðalögin, málunum sé þá bjargað á einhvern hátt.

Ekki er hægt að kenna versnandi stöðu HSÍ um að leikmenn þurfi að bera kostnað af ferðum. Þvert á móti. „Staðan á rekstri sambandsins hefur líklega aldrei verið betri en við stöndum frammi fyrir því sama og allt þjóðfélagið, við erum að missa samstarfsaðila og þurfum að standa mjög fast í fæturna í sambandi við allan kostnað. Það er þó alveg ljóst að inngripið af hálfu HSÍ fyrir komandi mót U-21 árs landsliðsins í Egyptalandi verður miklu meira heldur en var við þetta mót sem strákarnir voru að koma frá í Hollandi."

Nýjast