Þröstur Ernir Viðarsson hefur verið ráðinn ritstjóri Vikudags og tekur hann við starfinu í byrjun júní. Þröstur Ernir hefur starfað sem blaðamaður á Vikudegi í sex ár. Hann er menntaður fjölmiðlafræðingur frá Háskólanum á Akureyri.
Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni, Vikudagur nýtur mikils trausts og blaðið hefur verið í sókn á undanförnum misserum. Með nýjum manni fylgja sjálfsagt nýjar áherslur, en á þessari stundu er of snemmt að gefa eitthvað út um þær. Ég mun kappkosta að blaðið verði í nánum tengslum við lesendur og segja fréttir af Eyjafjarðarsvæðinu. Svæðisbundnir miðlar gegna mikilvægu hlutverki og ég er sannfærður um að blaðið vaxi og dafni í framtíðinni.
Bjarni Hafþór Helgason, stjórnarformaður Útgáfufélagsins, segist binda miklar vonir við nýjan ritstjóra.
Samkvæmt skoðanakönnunum lesa um 7000 manns Vikudag og við viljum auka fjöldann enn frekar. Áskrifendur hafa verið afskaplega tryggir og ég er viss um að Þröstur Ernir kemur til með að halda merki blaðsins hátt á lofti.