Þrjú ár frá sameiningu Grímseyjar og Akureyrar

Höfnin í Grímsey.
Höfnin í Grímsey.

„Almennt held ég að Grímseyingar séu ánægðir með þetta fyrirkomulag,“ segir Sigurður Bjarnason formaður Hverfisráðs Grímseyjar en um þessar mundir eru þrjú ár frá því Grímsey sameinaðist Akureyri. Sigurður segir að vissulega séu skiptar skoðanir meðal íbúa eyjarinnar á sameiningunni en telur að heilt yfir séu menn ánægðir með umskiptin.  „Mér þykir þetta í góðu lagi og samskiptin við Akureyri ganga vel fyrir sig, þannig að mitt mat er það að sameiningin hafi verið tl bóta fyrir okkur,“ segir hann. 

Miklar kvaðir eru á sveitarfélögum og þau hafa skyldur við íbúana, sem erfitt er orðið fyrir fámenn sveitarfélög eins og Grímsey að standa undir.  Þar búa nú um 80 manns, en fleiri eru í eynni yfir sumarið.  „Hér hefur verið farið í framkvæmdir, viðhald og fleira, sumt kostnaðarsamt og ég er ekki viss um að við hefðum staðið undir því öllu saman.  Akureyringar hafa verið opnir fyrir því og það finnst mér jákvætt,“ segir Sigurður. „Ég held að alveg óhætt sé að segja að þetta gangi allt saman ágætlega.“

Rólegt er yfir í Grímsey þessa viku, bátar fóru ekki á sjó eftir sjómannadag en margir útgerðarmenn eru innan raða LÍÚ og hafa haldið bátum sínum í landi að tilmælum samtakanna.  Ekkert er því um að vera í fiskvinnslu og fiskmarkaður lokaður.  Almennt segir Sigurður þó að líflegt sé í Grímsey yfir sumarið og fjöldi fólks hafi þar viðveru, m.a. þeir sem geri út á strandveiði.

 

Nýjast