Eftir æsispennandi kosninganótt varð niðurstaðan sú í Norðausturkjördæmi að Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn urðu sigurvegarar miðað við kosningarnar 2003, Samfylkingin tapaði og Framsóknarflokkurinn tapaði miklu. Þrír nýir þingmenn eru í kjördæminu eftir kosningarnar og 1. þingsæti kjördæmisins fluttist frá Framsóknarflokki til Sjálfstæðisflokks. Nýju þingmennirnir þrír eru Kristján Þór Júlíusson og Ólöf Norðdal frá Sjálfstæðisflokki og Höskuldur Þór Þórhallsson Framsóknarflokki. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 28,0% atkvæða en fékk 23,5% fyrir fjórum árum. Framsóknarfdlokkur fékk 24,6% en 32,8% fyrir fjórum árum, Samfylkingin fékk 20,8% en 23,4% fyrir fjórum árum, Vinstri grænir fengu 19,6% en 14,1% fyrir fjórum árum, Frjálslyndi flokkurinn fékk 5,9% en 5,6% fyrir fjórum árum og Íslandshreyfingin fékk 1,2%. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn og vann einn, Framsókn 3 menn og tapaði einum, Samfylking og Vinstri grænir fengu 2 menn eða jafn marga og 2003.