Góður gangur er nú á framkvæmdum við nýjan gervigrasvöll á Þórsvellinum, en eftir rigningarkafla er allt farið á fljúgandi ferð á ný. Heimasíða félagsins segir svo frá.
,,Undanfarnar vikur hefur öflugur hópur starfsmanna lagt lokahönd á upphitaðan gervigrasvöll á Þórssvæðinu.
Um er að ræða svæðið Ásinn, austan við aðalvöllinn. Þar er verið að byggja knattspyrnuvöll í fullri stærð (105 x 68 m) með flóðlýsingu og 35 x 80 metra æfingasvæði. Samhliða mun rísa 500 manna áhorfendastúka austan við völlinn.
Stúkan er þegar komin til landsins og verður sett upp á skömmum tíma eftir að völlurinn er tilbúinn."
Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs er eðlilega himinsæll með gang mála. „Veðurguðinn er loksins okkur hliðhollur. Við klárum að leggja púðann um næstu helgi og stefnum á að byrja að leggja grasið mánudaginn 29. september. Eftir þessa viku þurfum við um tveggja vikna glugga til að ljúka bæði púða og graslagningu.“
Reimar tók myndir af svæðinu í gær, þar sem enginn annar en Kiddi Lór leit við til að ganga úr skugga um að allt væri á réttri leið."