Fjölmennur félagsfundur hjá Íþróttafélaginu Þór í gærkvöld hafnaði nýjum tillögum íþróttaráðs Akureyrarbæjar um uppbyggingu frjálsíþróttasvæðis á félagssvæði Þórs. Endurskoðun rekstrarsamninga stóru íþróttafélaganna í bænum, KA og Þórs, hefur nú verið afgreidd í bæjarráði og bíður undirritunar. Formaður Þórs er ekki alveg sáttur. Helsta ástæða þess að tillögunum um uppbyggingu á Þórssvæðinu var hafnað, er sú að bærinn bauð Þór engar fébætur fyrir það svæði sem á að fara undir frjálsar íþróttir. Í rekstrarsamningunum er gert ráð fyrir 10 milljóna króna eingreiðslu til félaganna á þessu ári og að samtals muni 42,5 milljónir króna koma til hvors íþróttafélags á næstu 5 árum eða til og með ársins 2012. Í þessum samningum er m.a. gert ráð fyrir svokölluðum hvatagreiðslum en í þeim felst að félögin fá 4 milljónir króna ár hvert skili þau hagnaði það árið. Nánar er fjallað um þessi mál í Vikudegi í dag.