Grindvíkingar stefna hraðbyri upp í úrvalsdeild á ný eftir góðan og öruggan sigur á Þórsurum í Grindavík um helgina.
Grindvíkingar voru mun sterkari í leiknum og var Orri Freyr Hjaltalín sýnum fyrrum félögum í Þór gríðarlega erfiður. Hann skoraði fyrsta mark leiksins, snemma leiks, og olli í sífellu miklum usla í óöruggri Þórsvörninni.
Heimamenn bættu reyndar ekki við öðru marki fyrr en á 70. mínútu þegar Andri Steinn Birgisson skoraði. Eysteinn Húni Hauksson skoraði svo þriðja og síðasta markið skömmu fyrir leikslok.
Grindvíkingar voru eins og tölurnar gefa til kynna mun sterkari en Þórsarar, sem virkuðu hálf andlausir í leiknum. Þeir fengu fá færi og varnarleikurinn var ekki traustur, nokkuð sem þarf að laga ef ekki á illa að fara gegn Stjörnunni í næsta leik. Þórsarar eru nú í 8.sæti deildarinnar.
Nánar er fjallað um leikinn í Vikudegi á fimmtudaginn.