Þór/KA gengur ekki vel að ná í stig í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu, í gærkvöldi töpuðu þær gegn Breiðabliki í Kópavogi 0-2, úrslit sem verða að teljast sanngjörn.
Blikastelpur hófu leikinn vel og voru komnar yfir eftir um 7 mínútna leik, þar var að verki landsliðsmaðurinn Gréta Mjöll Samúelsdóttir. Hún tók laglega við boltanum utan teigs vinstra megin, lék á einn varnarmann og setti boltann í markið. Vel að verki staðið hjá henni.
Breiðablik voru áfram sterkari það sem eftir var hálfleiks og fengu þær töluverðan fjölda af hálffærum og fyrirgjöfum sem vörn Þórs/KA náði þó ávallt að hreinsa, enda áttu þær fínasta leik. Það sem helst mátti finna að leik Þórs/KA stelpna var að þær sýndu gestunum full mikla virðingu og virðist einnig sem sjálstraustið sé eitthvað farið að dvína enda langt síðan stig sáust síðast á Akureyri.
Í síðari hálfleik efldust Þórs/KA stelpur hins vegar til muna og ætluðu greinilega að selja sig dýrt til að næla í stig. Smám saman unnu þær sig inn í leikinn með mikilli baráttu og fengu svo dauðafæri til að jafna þegar Rakel Hönnudóttir komst ein í gegn en Petra Lind Sigurðardóttir í marki Breiðabliks varði. Þess má reyndar geta að Petra Lind spilaði einmitt með Þór/KA í fyrra.
Ekki löngu síðar gerði Laufey Björnsdóttir, sem eitt sinn spilaði með Þór/KA, svo út um leikinn þegar hún fylgdi eftir stangarskoti og renndi boltanum yfir línuna.
Níunda tap Þórs/KA í 10 leikjum því staðreynd. Einu stig liðsins komu í 3-2 sigurleik gegn Fylki í júní. Þó hefur frammistaða liðsins verið ágæt á köflum og má telja marga leiki þar sem hreinlega grátlegt er að þær hafi ekki nælt í stig. Nægir þar að nefna síðasta leik gegn Keflavík sem tapaðist á lokasekúndum, sem og fyrri leikinn gegn Breiðablik sem tapaðist mjög ósanngjarnt 3-2.
Liðið á þó mikilvæga heimaleiki eftir gegn ÍR og Fjölni, auk þess sem þær eiga eftir að leika við Fylki á útivelli, sigrar í þessum leikjum færu eflaust langt með að tryggja áframhaldandi veru í Landsbankadeildinni. Næsti leikur er einmitt á heimavelli gegn Fjölni og þá er algjörlega nauðsynlegt að þrjú stig komi í hús.