Þór/KA heldur efsta sætinu í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, eftir sannfærandi sigur á Fylki á Þórsvellinum í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 4:0 og skoraði hin 17 ára Sandra María Jessen fyrstu tvö mörkin fyrir Þór/KA í fyrri hálfleik. Þessi stórefniefnilega stúlka hefur nú skorað 10 mörk í níu leikjum. Katrín Ásbjörnsdóttir bætti þriðja markinu við á lokamínútu fyrri hálfleiks en hin bandaríska Tahnai Annis bætti fjórða markinu við í síðari hálfleik. Það er alltaf gaman að vinna og þetta var rosalega skemmtilegt, enda sigurinn nokkuð öruggur sagði Sandra María eftir leikinn í kvöld. Hún sagði að sumarið hefði verið einstaklega skemmtilegt, enda hafi liðið verið að spila hreint frábærlega. Mótið er nú hálfnað og hefur Þór/KA 22 stig að loknum níu umferðum.
Þór/KA og Fylkir mætast aftur á Þórsvellinum nk. föstudagskvöld í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins. Sandra sagði að sá leikur leggðist mjög vel í sig en að ekki mætti vanmeta lið Fylkis þrátt fyrir sannfærandi sigur í kvöld. Þær geta spilað vel en á góðum degi eigum við að vinna og við þurfum alltaf að vera á tánum.