Þórarinn B. óskar eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær las forseti upp bréf frá Þórarni B. Jónssyni bæjarfulltrúa, þar sem hann óskar eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn. Þórarinn hefur verið varabæjarfulltrúi en átti að taka sæti aðalmanns nú um áramót, þegar Kristján Þór Júlíusson óskaði eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn. Ólafur Jónsson verður því aðalmaður í bæjarstjórn í stað Kristjáns Þórs.  

Ólafur verður jafnframt varamaður í bæjarráði. Í bréfi Þórarins B. Jónssonar segir m.a: "Árið 1994 var ég kosinn bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri og tók sæti í bæjarstjórn, ég var 12 ár samfellt bæjarfulltrúi til ársins 2006, en á yfirstandandi kjörtímabili hef ég verið 1. varamaður í bæjarstjórnarliði  Sjálfstæðisflokksins.  Á þessu tímabili  sat ég í ráðum og nefndum fyrir bæjarstjórnina, mörg þessi störf voru krefjandi en á sama tíma mjög gefandi, ég tel mig hafa sinnt þessum störfum öllum að trúmennsku.
Nú 1. janúar 2010 varð ég aftur bæjarfulltrúi er vinur minn Kristján Þór Júlíusson fékk lausn frá störfum bæjarfulltrúa.  Mál hafa hins vegar skipast svo hjá mér að ég dvel erlendis hluta úr árinu og verð ekki heima frá miðjum janúar til vors. Hef ég því ákveðið að óska eftir lausn frá störfum í bæjarstjórn Akureyrar.  Ennfremur mun ég ekki gefa kost á mér til framboðs vegna bæjarstjórnarkosninga í maí nk."

Nýjast