Þórsarar unnu Þrótt Reykjavík verðskuldað 3-1 á Þórsvelli í dag í 1. deild karla í knattspyrnu en heimamenn voru heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum. Þá gerði KA góða ferð suður og lagði Leikni R. á Leiknisvelli á sama tíma, 3-1, og fékk sín fyrstu stigi í deildinni. Þórsarar hafa fullt hús stiga eða sex stig eftir fyrstu tvo leikina en KA hefur þrjú stig eftir jafnmarga leiki. Sveinn Elías Jónsson kom Þór yfir eftir níu mínútna leik á Þórsvelli er hann skoraði af stuttu færi eftir hafa sloppið einn í gegn eftir stungusendingu frá Jóhanni Helga Hannessyni.
Þróttarar jöfnuðu metin á 22. mínútu en markið skoraði Erlingur Jack Guðmundsson með skalla eftir hornspyrnu. Svíinn Robin Strömberg kom Þór yfir á ný eftir hálftíma leik en hann skoraði af stuttu færi, nánast með sinni fyrstu snertingu í Þórstreyjunni en hann var nýkominn inn á sem varamaður. Staðan 2-1 í hálfleik fyrir heimamenn. Það var svo Orri Freyr Hjaltalín sem gulltryggði sigur Þórs á 90. mínútu leiksins þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Lokatölur 3-1.
Á Leiknisvelli kom Kjartan Andri Baldvinsson heimamönnum yfir eftir tólf mínútna leik með skoti af stuttu færi. Gunnar Valur Gunnarsson jafnaði metin fyrir KA eftir hálftíma leik er hann skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu. Jóhann Helgason kom KA yfir snemma í síðari hálfleik og það var svo Ævar Ingi Jóhannesson sem skoraði þriðja mark KA í uppbótartíma. Lokatölur 1-3.