Þór bikarmeistari í 3. flokki

Þriðji flokkur karla í knattspyrnu hjá Þór varð í gærkvöld bikarmeistari eftir 3-1 sigur á Tindastóli í leik sem fram fór á Akureyrarvellinum.

Tindastóll lék undan sterkum vindi í fyrri hálfleik og náði 1-0 forystu. Vindurinn gerði Þórsurum erfitt fyrir en þeir léku einnig langt undir getu.

Í síðari hálfleik hins vegar tók það Þórsara ekki nema um tvær mínútur að jafna og fljótlega eftir jöfnunarmarkið bættu Þórsarar við öðru marki og komust í 2-1. Eftir þetta var aldrei spurning hvernig leikurinn færi, Þórsarar sóttu án afláts með vindinn í bakið en bættu þó einungis einu marki við og lokatölur 3-1.

Þórsarar eru því bikarmeistarar Norðurlands í 3. flokki.

Þess má einnig geta að fyrirliði Þórsara, Gísli Páll Helgason, var fyrir skömmu valinn í U17 ára landslið Íslands sem heldur til Serbíu í næstu viku. Þangað fer einnig KA-maðurinn Andri Fannar Stefánsson.

Nýjast