Þjónusta í fullum gangi á lands- byggðinni enda þöfin mikil

Af gefnu tilefni vilja talskonur frá Aflinu á Akureyri og Sólstöfum Vestfjarða ítreka að ekki hefur dregið úr þjónustu og starfsemi þeirra, heldur hefur þjónusta aukist á milli ára. Þrátt fyrir skerðingu á fjármagni þá eru samtökin að eflast. Hjá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldis var 14 % aukning á einkaviðtölum árið 2009 og árið á undan 94 % aukning.  

Þess má geta að tvær nýjar starfskonur eru að hefja störf og önnur þeirra mun svo starfa á Sauðárkróki. Skjólstæðingar keyra langar vegalengdir til að sækja viðtöl og hópastarf. Forvarnarstarfið er alltaf að aukast enda þörfin sem aldrei fyrr, segir í tilkynningu.

Sólstafir Vestfjarða, sjálfshjálparsamtök fyrir þolendur kynferðisofbeldis hafa líka aukið þjónustu sína.  65 % aukning var á komu einstaklinga árið 2009 og voru einstaklingsviðtölin um 70. Sólstafir sinna miklu forvarnarstarfi og eru í samstarfi við Blátt áfram, sem dæmi þá hafa 300 manns setið námskeiðið Verndari barna og yfir 300 skólabörn setið fyrirlestra á undanförnum misserum.

Sólstafir Vestfjarða og Aflið á Akureyri vinna markvisst að því að sporna við ofbeldi í samfélaginu og að bæta hagi og aðbúnað þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi eða eru í áhættuhóp hvað þetta varðar. Það er sorgleg staðreynd en mikilvægt að halda því til haga að þörfin fyrir þjónustu hefur aldrei verið meiri en nú á þessum samdráttartímum. Aflið og Sólstafir hafa með miklu sjálfboðaliðastarfi tekist að auka mjög svo mikilvæga þjónustu við þolendur ofbeldis.

Nýjast