Þjóðarvettvangur um brýn þjóðfélagsmál

Þjóðarvettvangur vill ýta undir samheldni þjóðarinnar og sýna að hér býr þjóð sem tekur sameiginlega á málum sem taka þarf á á hverjum tíma. Tilgangurinn er að mynda opna, uppbyggilega og agaða umræðu um erfið og tilfinningarík þjóðfélagsmál á hverjum tíma.  

Út frá þrem stærstu gildum Þjóðfundarins sem haldinn var í nóvember 2009 hefur verið myndaður vettvangur á netinu þar sem öllum gefst tækifæri á að ræða brýn þjóðfélagsmál í smáum hópum hvar sem er á landinu undir einföldum, öguðum en skemmtilegum vinnureglum sem einnig eru sóttar til Þjóðfundarins.

Markmiðið er að allir fái jöfn tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri eftir tilsettum leikreglum.  Á vefsvæðinu wwww.thjodarvettvangur.is er hægt að sækja gögn og leiðbeiningar með einföldum útskýringum sem leiða hvert fundarborð í gegnum umræðuna. Í lok fundar koma þátttakendur hvers fundarborðs sér saman um eina setningu sem verður sett inn á vefinn þar sem allar setningar úr öðrum umræðuhópum verða birtar og aðgengilegar. Setningarnar munu endurspegla lausnamiðaðar áherslur út frá umræðuefninu með mið af gildunum þremur. 

Vefurinn er kominn upp en verður formlega opnaður á morgun, laugardaginn 20. febrúar, þegar hrint verður úr vör fyrsta málefni Þjóðarvettvangs sem er Icesavemálið.  Á tímabilinu 20. febrúar til að með 27. febrúar nk. verður hægt að skrá inn setningarnar frá fundum  þeirrar viku á vefinn. Setningarnar birtast síðan allar á vefnum þegar fundarvikunni líkur, öllum til frjálsrar notkunar. 

Þjóðarvettvangur vonar að sem flestir Íslendingar taki þátt í fundarvikunni, hvort sem er við eldhúsborðið, fundarborð á litlum stað eða í stórum sal, með fjölskyldunni, stórfjölskyldunni, með vina- og/eða félaga- og starfsmannahópum. Tilgangurinn er að ræða málin á einlægan hátt, með virðingu fyrir skoðunum annarra, og standa saman til framtíðar með því að aðstoða hvert annað við að greina og meta afstöðu í mikilvægum málefnum sem snerta okkur öll! 

Á Akureyri verða fundarborð Þjóðarvettvangs í húsnæði Símeyjar, Þórstíg 4 á morgun laugardag. Fundartími er 12:30-15:00 og er öllum velkomið að mæta og taka þátt.

Nýjast