„Þetta hljómar eins og þetta sé ekki draumurinn minn“

Axel Flóvent er ungur og upprennandi tónlistarmaður. Ljósmynd: Sigga Ella
Axel Flóvent er ungur og upprennandi tónlistarmaður. Ljósmynd: Sigga Ella

Axel Flóvent Daðason er tvítugur Húsvíkingur sem hefur vakið mikla athygli hérlendis og erlendis á þessu ári fyrir tónlist sína. Axel er talinn vera eitt mesta efni í íslensku tónlistarlífi í dag; margir hafa heyrt nafnið en fáir þekkja til hans.

Axel Flóvent ólst upp á Húsavík og bjó þar þangað til hann varð 17 ára ef frá eru talinn 3 ár sem hann bjó í Danmörku frá því hann var 10 ára og þangað til hann varð 13 ára.

Axel fékk fyrsta gítarinn sinn í jólagjöf níu ára gamall og þá hófst glamrið en hann segist þó ekki hafa tengt almennilega við tónlistina alveg strax.

„Ég myndi segja að ég hafi kynnst tónlistinni almennilega þegar ég var 11 ára; þá byrjaði ég að skilja tónlist og fór að semja hana.“ segir Axel  og heldur áfram „Það sem heillaði mig við semja var að vera tengdur tónlistinni og að geta samið og spilað hana, eða ég taldi mér allavega trú um það að ég gæti það 11 ára gamall.“

Axel kemur úr mikilli tónlistarfjölskyldu. Bróðir hans, Þórir Georg, er tónlistarmaður og leit Axel mikið upp til hans og hafði hann sterk áhrif á hvernig tónlistarmaður Axel er í dag. Ásgeir Trausti og Steini í Hjálmum eru bræður móður hans. Afi hans Einar Georg samdi textana við fyrstu plötu Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn, en hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir, engu að síður myndi Axel ekki vilja fá hann til að semja texta fyrir sig. „Textaformið er svo mikilvægt fyrir mig; ég vil gera textana mína sjálfur. Ég þarf svo mikið að tjá mig í textum. Ég sem um allt, tengingar á milli fólks og síðan sendi ég skilaboðum til vina í gegnum lögin mín. Þetta er samt oftast um tilfinningar“ útskýrir Axel.

Axel hafði mikinn metnað fyrir tónlistinni þegar hann var yngri og eyddi frítíma sínum að miklu leyti einn inn í herbergi að semja. Húsavík er ekki stór bær og fáir sem voru í sömu pælingum og hann varðandi tónlistina. „Ég hafði fáa til að tala um tónlist við að einhverju viti og ég tengdi við fáa þannig ég var alltaf að bíða eftir því að komast í stærra samfélag.“

 

Tónlist plan A, myndlist plan B

Axel tók fyrsta árið í Framhaldsskólanum á Húsavík en flutti síðan til Akureyrar og hóf nám á listnámsbraut í VMA með myndlistarkjörsvið. „Ég ætlaði mér alltaf að verða tónlistarmaður, það var plan A, síðan var ég með plan B ef það myndi ekki ganga og það plan var það að verða myndlistarmaður“ segir Axel um það hvers vegna hann valdi myndlistarkjörsvið „Það er reyndar mjög fyndið að hugsa til þess að myndlist hafi verið plan B því það er töluvert erfiðara að koma sér í stöðu þar sem maður lifir af því að vera myndlistarmaður.“

Axel telur það hafa verið mjög gott skref fyrir hann að flytja til Akureyrar. „Það var mjög gott að flytja til bæjar sem er töluvert stærri en Húsavík en samt frekar lítill. Akureyri hafði mjög mikil áhrif á þróunarferlið á tónlistinni minni. Ég samdi eiginlega öll lögin sem ég hef gefið út núna á menntaskóla árunum mínum á Akureyri“ segir hann.

 

Íslendingar fréttu af Axel erlendis frá

Boltinn fór að rúlla hjá Axel sumarið 2014. Hann gaf út lag á netinu sem heitir Beach. „Þegar ég gaf lagið út fékk ég meiri athygli en ég hafði nokkuð tímann fengið fyrir lögin mín. Í kjölfarið hafði breskt útgáfufyrirtæki samband við mig og vildi vinna með mér. Með því samstarfi kom markmið; við ætluðum að gefa út EP plötu. Um svipað leyti fór ég að starfa með umboðsmanninum mínum, Sindra Ástmarssyni, sem hefur hjálpað mér mikið.“ segir Axel um upphafið af alvörunni.

Ferill Axels fór mjög undarlega af stað; vanalega er það svoleiðis að tónlistarfólk nær fyrst vinsældum hér á landi og vekja þannig athygli á sér erlendis en hjá honum er sagan önnur. „Þetta fór rosalega skringilega af stað. Bransafólk úti veitti mér fyrst athygli og byrjaði að tala við. Bransafólk hérna heima fór síðan að heyra nafnið mitt í gegnum bransafólkið úti. Þegar ég spilaði fyrst úti í Bretlandi höfðu tónleikarnir sem ég hafði spilað á hér heima verið býsna litlir“ segir Axel. „Það er mjög erfitt að koma sér á framfæri hérna heima. Ef fólk veit ekki hver þú ert þá kemur enginn nema vinir þínir og kannski einhverjir útlendingar; þannig ég hef litla reynslu á því að spila fyrir Íslendinga. Maður þarf nánast að borga fyrir að spila hér heima. Eins lifandi og tónlistarlífið er á Íslandi þá er mjög lítið gert til þess að viðhalda þessu. Það sem heldur þessu tónlistarlífi svona lifandi er bara útaf því Íslendingar eru mjög listrænir. Það er samt að verða breyting á þessu; Íslendingar eru að átta sig á þessu og þetta er að batna“ segir Axel.

Það fór svo að Axel gaf út EP plötu með breska útgáfufyrirtækinu Trellis Records. Sú plata kom út í sumar og heitir Forest Fires. „Ég er ekki á samning hjá útgáfufyrirtækinu í Bretlandi en það hjálpaði mér mikið að koma mér af stað“ útskýrir Axel „Í dag er ég í viðræðum um samninga við nokkur spennandi útgáfufyrirtæki.“

Axel staðfestir það að nýtt efni sé á leiðinni frá honum. „Útgáfufyrirtækin vilja fyrst gefa út Forest Fire upp á nýtt og við munum líklegast byrja á því en ég er búinn að vera í stúdíói að undanförnu og ég er tilbúinn með breiðskífu“ segir Axel en hann býst við því að lögin á plötunni verði 14 alls.

Nafn Axels er sífellt að stækka hérlendis sem og erlendis. Nú nýverið seldi Axel lög eftir sig í þýska auglýsingu og í bandarísku sjónvarpsþáttaröðina The Vampire Diaries; lagið sem mun heyrast í þeim þáttum er titillag EP plötunnar, Beach. „Það var mjög gaman; ég hafði aðeins einu sinni áður selt lag eftir mig í sjónvarp. Það var í kanadíska þáttinn Degrassi“ segir Axel.

 

Starfar sem tónlistarmaður

Axel útskrifaðist úr VMA í vor og er nú fluttur til Reykjavíkur. Hann starfar nú einungis sem tónlistarmaður. „Það er vegna þess að ég vil bara vera gera þetta. Það er ekki eins og ég sé að fá miklar tekjur. Ég get lifað á tekjunum eins og þær eru í dag en síðan kemur bara í ljós hvað gerist á næstunni“ segir Axel. Hann segir að það geti verið erfitt að halda sér við efnið þegar maður er ekki með fastan vinnutíma. „Ég reyni að skipuleggja mig en ég á það til að detta í kæruleysið og vera ekki að gera neitt ef ég finn enga löngu til þess að gera eitthvað. Þegar þetta gerist reyni ég að snúa hlutunum við og fara gera eitthvað; það þetta fer eftir dögum suma daga er ég bara kærulaus og geri ekkert og aðra er ég mjög iðinn og teikna mikið og sem lög og texta. Það er mjög erfitt að vera sinn eigin herra“ segir Axel um hvernig dagarnir hans eru. „Ég er nánast að verða geðveikur á þessu; það er enginn að upplifa þetta með mér, það er enginn að gera það sama og ég, þannig ég er mikið einn. Þetta er mjög skrýtinn lífsstíll. Þetta hljómar eins og þetta sé ekki draumurinn minn en þetta er hann því þetta gerir það kleift að ég get gert það sem ég elska. Ég myndi bara vilja túra og það kemur að því ef þetta verður að einhverju. Núna er ég bara að gera mig tilbúinn ef það skyldi gerast. Ég ætla að semja nóg af efni, vera með nóg af efni tilbúið fyrir næstu ár. Ég er að undirbúa mig fyrir næstu ár. Það er skrýtið og það eru mjög margir sem skilja þetta ekki. Foreldrar mínir skilja þetta ekki og mamma er alltaf að biðja mig um að fá mér vinnu en ég get ekki verið bundinn einhverri vinnu því þá þyrfti ég stanslaust að vera fá frí til að gera hitt og þetta. Ég vil frekar bara einbeita mér að þessu núna og sjá hvað gerist því það er mögulegt fyrir mig eins og staðan er núna.“ segir Axel sem virðist vera mjög ákveðinn í því að ná markmiðum sínum.

 -BÞB

 

Nýjast