22. október, 2015 - 11:27
Saga Garðarsdóttir og Dóri DNA í hlutverkum sýnum.
Menningarfélag Akureyrar frumsýnir glænýtt íslenskt verk í sviðsetningu Leikfélags Akureyrar og menningarhússins Hofs íkvöld. Verkið ber titilinn Þetta er grín, án djóks og er eftir þau Halldór Laxness Halldórsson (Dóra DNA) og Sögu Garðarsdóttur. Um er að ræða sprenghlægilegt gamanverk þar sem þau Saga og Dóri leika sig sjálf
ef þau væru kærustupar. Verkið fjallar fyrst og síðast um húmor og velta þau mikið fyrir sér virði brandara.
Hverju má gera grín að og hver má gera það? Þarf maður að sleppa því að segja alveg ógeðslega fyndinn brandara bara af því að hann er óviðeigandi? Í þessari rannskókn sinni leyfa þau að sér að ganga ansi langt í prófunum, svo langt að við getum lofað því að einhverjum áhorfendum mun blöskra eða blygðast sín.
Sem fyrr segir eru það þau Saga og Dóri sem fara með aðalhlutverk sýningarinnar en auk þeirra stígur Benedikt Karl Gröndal á svið og er hann í hlutverki ákaflega misheppnaðs umboðsmanns þeirra skötuhjúa.
"Þríeykið hefur fengið fjölda gesta á forsýningar í þessari viku og síðustu og hafa fliss, undrunaróp og hlátrasköll ómað um allt Hof," segir í tilkynningu.
Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir gríninu, Magnea Guðmundsdóttir, eiginkona Dóra, hannar leikmynd og búninga fyrir verkið og kærasti Sögu, tónlistarmaðurinn Snorri Helgason, á hljóðmynd og útsetningar.
Verkið verður sýnt á föstudögum í stóra sal Hofs, Hamraborg.